Leiðtogar Þýskalands og Frakklands urðu í dag sammála um áætlun sem miðar að því að auka aga í ríkisfjármálum ríkja á evrusvæðinu. Segja þeir að breyta verði stofnsáttmála Evrópusambandsins til að takast á við skuldakreppuna í Evrópu og bjarga evrusamstarfinu.
Síðar í þessari viku stendur til að leiðtogar Evrópusambandsríkja leggi lokahönd á björgunaráætlun fyrir evrusvæðið.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sagði eftir fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag að ríkin væru sammála um hvað gera þyrfti og mundu lýsa þeim tillögum í bréfi til Hermans Van Rompuys, forseta Evrópusambandsins, á miðvikudag.
„Við viljum tryggja að það ójafnvægi, sem leiddi til núverandi stöðu á evrusvæðinu, endurtaki sig ekki," sagði Sarkozy.
Sarkozy og Merkel vilja að gerður verði nýr bindandi sáttmáli fyrir þau 17 ríki, sem taka þátt í evrusamstarfinu og sem önnur ESB-ríki geti gerst aðilar að. Þessi sáttmáli kveði á um strangar reglur um ríkisfjármál og að þau ríki, sem ekki uppfylla þær, sæti refsiaðgerðum.