Flestar hlutabréfavísitölur hafa lækkað í Evrópu í dag og gengi evrunnar hefur einnig lækkað í kjölfar tilkynningar matsfyrirtækisins Standard & Poor's um að lánshæfismat fjölmargra evru-ríkja hafi verið sett á athugunarlista með mögulega lækkun í huga.
Í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,86% og CAC vísitalan í París hefur lækkað um 0,65% en meðal ríkja sem S&P íhugar að lækka lánshæfismat á eru Þýskaland og Frakkland.
Í Madríd hefur hlutabréfavísitalan lækkað um 0,13% og í Mílanó hefur vísitalan lækkað um 0,44%. Hins vegar hefur FTSE vísitalan í Lundúnum hækkað um 0,14%.
Evran var fyrr í dag skráð á 1,3334 Bandaríkjadali á gjaldeyrismörkuðum og er það lægsta gildi hennar síðan 30. nóvember. Hún hefur hins vegar rétt örlítið úr kútnum og voru viðskipti með evruna á 1,3375 dali nú síðdegis.