Mesti vöxtur frá byrjun árs 2008

Aukin einkaneysla hefur mikil áhrif á landsframleiðsluna
Aukin einkaneysla hefur mikil áhrif á landsframleiðsluna Reuters

Landsframleiðslutölur fyrir þriðja fjórðung þessa árs benda til þess að umsvif í hagkerfinu séu að aukast. Þannig mældist 4,8% hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi í ár sem er mesti vöxtur landsframleiðslunnar á einum fjórðungi frá því á fyrsta ársfjórðungi 2008. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Munar þar miklu um 5,1% vöxt einkaneyslunnar sem vegur um helming landsframleiðslunnar. Þess að auki var 1,4% vöxtur í fjárfestingu á tímabilinu sem má einkum rekja til einkaaðila enda var samdráttur í fjárfestingu hins opinbera upp á rúm 28% á tímabilinu.

Samneyslan jókst svo lítillega, eða sem nemur um 0,5%. Jafnframt var framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar jákvætt á fjórðungnum, sem er í fyrsta sinn sem slíkt er upp á teningnum síðan á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Jókst útflutningur um 5,4% á þriðja ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra, og innflutningur um 2,0%.

„Hagstofan hefur einnig endurskoðað tölur fyrir fyrri helming ársins og benda þær til að mun meiri vöxtur hafi verið á því tímabili en fyrri tölur gáfu til kynna. Þannig jókst landsframleiðslan um 3,1% að raungildi frá sama tíma í fyrra, en fyrri tölur höfðu bent til 2,5% vaxtar. Munar þar töluvert um að einkaneyslan jókst um 4,0% á tímabilinu í stað 3,1% eins og fyrri tölur bentu til.

Einnig var töluvert meiri vöxtur í atvinnuvegafjárfestingu á tímabilinu, eða  um 14,0% í stað 11,9%, en á hinn bóginn dróst samneyslan saman samkvæmt þessum nýju tölum um 0,4% en eldri tölur höfðu gefið til kynna lítilsháttar vöxt, eða upp á 0,2%. Einnig vekur athygli að töluverður vöxtur var í útflutningi á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tíma 2010, eða sem nemur um 1,9%, en eldri tölur höfðu gefið til kynna 0,5% samdrátt, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK