Öll markmið sem stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur settu sér í fyrravetur um reksturinn á þessu ári hafa náðst. Betur hefur gengið að ná niður kostnaði en áætlunin gerði ráð fyrir, sérstaklega um lækkun viðhaldskostnaðar og um fækkun starfsmanna.
Í mars á þessu ári samþykktu eigendur Orkuveitunnar aðgerðaráætlun sem stjórnendur hennar höfðu samið. Áætlunin er kölluð „Planið“ en hún nær til ársins 2016. Áætlunin byggir á því að Orkuveitan verði að fjármagna sig á þessu tímabili án þess að taka nein lán. Ástæðan er sú að fjárhagsstaða fyrirtækisins var orðin það slæm að bankarnir voru ekki tilbúnir til að lána félaginu meiri peninga.
Til að þetta geti gengið upp þarf Orkuveitan að auka tekjur sínar um 30 milljarða fram til 2016 og lækka kostnað um 20 milljarða. Í ár þarf batinn að vera 11,5 milljarðar, en þar af skilar víkjandi lán frá eigendum OR 8 milljörðum. Lækka á fjárfestingar í veitukerfum um 1.205 milljónir, lækka á fjárfestingar um 250 milljónir, hækkun gjaldskrár á að skila 1.122 milljónum í auknar tekjur, lækka á rekstrarkostnað um 300 milljónir og selja á eignir fyrir 1.000 milljónir.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir að miðað við uppgjör eftir fyrstu níu mánuði þessa árs hafi tekist að ná öllum markmiðum og gott betur. Sparnaður við lækkun fjárfestinga í veitukerfum sé þegar orðinn meiri en stefnt var að fyrir allt árið. Hann átti að vera 861 milljón á fyrstu 9 mánuðunum, en sé orðinn 1.315 milljónir. Sama er að segja um lækkun rekstrarkostnaðar. Lækkunin átti að vera 100 milljónir miðað við fyrstu 9 mánuðina (300 milljónir miðað við allt árið), en sé þegar orðin 496 milljónir.
Orkuveitan setti sér í mars það markmið að fækka starfsmönnum um 90 fram til ársins 2016. Þegar er búið að fækka um 52 og það stefnir í að markmið um fækkun starfsmanna náist fyrir árslok 2012. Þessi fækkun hefur að mestu gerst án uppsagna. Þess ber þó að geta að 65 manns var sagt upp á síðasta ári. Nú eru starfsmenn Orkuveitunnar 469, en þeir voru flestir 607 árið 2008.
Á fyrstu 9 mánuðum ársins nam rekstrarhagnaður Orkuveitunnar 9,3 milljörðum, en nam tæplega 4 milljörðum á sama tímabili í fyrra.