Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri fjárfestingafélagsins FL Group, hefur fengið greiddar ríflega 350 milljónir króna út úr þrotabúi gamla Landsbankans en slitastjórn bankans greiddi út í gær fyrstu hlutagreiðslur til forgangskröfuhafa.
Samþykktar forgangskröfur Hannesar á þrotabú gamla Landsbankans vegna innstæðna sem hann átti í bankanum nema hins vegar samtals tæplega 1,13 milljörðum króna og því ljóst að hann á von á um 760 milljóna króna greiðslu til viðbótar.
Þetta kemur fram á kröfuhafalista sem Morgunblaðið hefur undir höndum og hefur að geyma upplýsingar um þær upphæðir sem hver forgangskröfuhafi fær greiddar út úr þrotabúi gamla Landsbankans.
Slitastjórn Landsbankans tilkynnti í gær 432 milljarða króna útgreiðslu til kröfuhafa í bú gamla Landsbankans, en sú upphæð nemur um 31% af samþykktum forgangskröfum. Greiðslan fór fram í körfu helstu gjaldmiðla sem voru til reiðu – evrum, sterlingspundum, Bandaríkjadölum og íslenskum krónum.
Á kröfuhafalistanum sem Morgunblaðið hefur undir höndum kemur fram að af þeim 432 milljörðum króna sem greiddir voru út eru um 10 milljarðar í íslenskum krónum. Stærstur hluti þeirrar upphæðar – ríflega 8 milljarðar – rennur til breska og hollenska innstæðutryggingarsjóðsins.
Ekki fengust svör frá Seðlabankanum um hvort útgreiðslur í íslenskum krónum úr þotabúi bankans leiddu til þess að aflandskrónueign ykist enn frekar frá því sem nú væri. Í fyrirspurn Morgunblaðsins til Seðlabankans í síðasta mánuði upplýsti bankinn að ekki lægi fyrir á þeirri stundu hvort kröfuhöfum yrði gert kleift að skipta krónunum fyrir erlendan gjaldeyri á hinu opinbera seðlabankagengi eða hvort farið yrði með eignina eins og aðrar aflandskrónur í eign erlendra aðila. Þrátt fyrir að 10 milljarðar séu ekki há upphæð er hins vegar rétt að hafa í huga að heildarveltan á gjaldeyrismarkaði fyrstu tíu mánuði ársins nam aðeins um 64 milljörðum króna.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í gær að útgreiðsla slitastjórnar Landsbankans hjálpaði Íslendingum í öllum málflutningi sínum á erlendum vettvangi í Icesave-málinu. „Það er mjög mikilvægt að menn sjái að athafnir fylgja orðum og við segjumst ekki aðeins ætla að borga heldur fari peningarnir til kröfuhafanna.“
Árni sagði „að ef þrotabúið stendur undir öllum þessum kröfum vegna innstæðna og einhverjum vöxtum, sé ég ekki á hvaða grunni er hægt að reka mál frekar fyrir EFTA-dómstólnum.“