Bandaríski bílaframleiðandinn Ford Motor Co. tilkynnti í kvöld að fyrirtækið myndi byrja að greiða út arð að nýju en það hefur ekki gerst í fimm ár. Þykir þetta merki um að Ford, sem er annar stærsti bílaframleiðandinn í Bandaríkjunum, sé að rétta úr kútnum.
Stjórn Ford ákvað á fundi sínum í dag að greiða út arð sem ekki hefur verið gert síðan í september 2006. Er þetta gert vegna þess góða árangurs sem náðst hefur í að greiða upp skuldir fyrirtækisins og jákvæðrar afkomu félagsins, segir stjórnarformaður Ford, Bill Ford. Verður arðurinn, fimm sent á hlut, greiddur út hinn 1. mars 2012.
Segir hann arðgreiðslurnar mikilvægt merki um þann árangur sem hafi náðst í rekstri fyrirtækisins. Ford er eini stóri bílaframleiðandinn í Bandaríkjunum sem ekki þurfti að leita á náðir stjórnvalda í kreppunni 2008-2009. Í október kynnti Ford tíunda ársfjórðunginn í röð hagnað af rekstri. Hlutabréf Ford lækkuðu um 3% í kauphöllinni í New York í kvöld.