Fyrrverandi forstjóri verðbréfafyrirtækisins MF Global, Jon Corzine, hefur ekki hugmynd um hvað varð um 1,2 milljarða Bandaríkjadala, 143 milljarða króna, sem virðast hafa horfið af reikningum félagsins.
Corzine, sem er fyrrverandi þingmaður demókrata, ríkisstjóri New Jersey og yfirmaður Goldman Sachs, sat fyrir svörum hjá þingnefnd í kvöld. Bað hann fjárfesta afsökunar en segist ekki hafa hugmynd um hvað varð um peningana. „Ég veit einfaldlega ekki hvað varð um peningana eða hvers vegna bókhaldið kemur ekki heim og saman,“ sagði Corzine við þingnefndina. MF Global fór í þrot í október einkum og sér í lagi vegna þess að fyrirtækið hafði veðjað á ríkisskuldabréf Belgíu, Ítalíu, Spánar, Írlands og Portúgal.
Um 1,2 milljarðar dala virðast hafa horfið út af reikningum viðskiptavina verðbréfafyrirtækisins sem einkum þjónustaði fjárfesta með framvirkum samningum.