Eftirspurnin var svo mikil í hlutafjárútboðinu vegna Haga að stórar áskriftir voru skornar niður. Er þá átt við áskrifitir frá 25 milljónum upp í 500 milljónir. Tekið var fram í skilmálum að svo gæti farið og myndi seljandi þá sjálfur ákveða reglur um skerðingu í samræmi við markmið útboðsins. Þeir sem skráðu sig fyrir bréfum frá 500 þúsund upp í 25 milljónir fengu einnig skerðingu.
Horft var til þess að bæði almenningur og fagfjárfestar, sem reyndar voru ekki skilgreindir sérstaklega, myndu geta eignast hlut en jafnframt vildi seljandi fá ásættanlegt verð. En hvaða reglur giltu um skerðingu?
„Í grunninn voru þetta tvær tölur sem voru notaðar, annars vegar 6% og hins vegar 18%,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, fjölmiðlafulltrúi Arionbanka. „Þeir einu sem fengu 18% voru lífeyrissjóðir og sjóðir í almannaeigu, t.d. verðbréfasjóðir. Fyrir utan þessa aðila voru það svo auðvitað einstaklingar eða fyrirtæki sem töldu sig hafa þessa fjárfestingagetu sem gerðu tilboð.“ Haraldur sagðist ekki geta gefið upp að sinni hvaða lífeyrissjóðir eða aðrir sjóðir hefðu gert tilboð en það kæmi í ljós strax í næstu viku.