Atvinnuleysi mældist 8,3% að meðaltali í ríkjum OECD í október en það var 8,1% í september. Litlar breytingar hafa orðið á hlutfalli atvinnulausra í ríkjunum það sem af er ári.
Á evrusvæðinu jókst atvinnuleysi um 0,1% á milli mánaða og mældist 10,3% í október og hefur ekki verið meira frá upphafi efnahagskreppunnar árið 2008. Í Hollandi mælist atvinnuleysi 4,8% og á Spáni er það 22,8%. Í júlí 2007 mældist atvinnuleysi á Spáni 7,9%. Í Þýskalandi dró úr atvinnuleysi í október og mælist það 5,5% en hæst fór það í 8% um mitt ár 2009.
Alls eru um 45,1 milljón manna án atvinnu í OECD-ríkjunum í október og fækkar um 1,5 milljón frá september.
Atvinnuleysi mældist 9,8% að meðaltali í ríkjum ESB í október og er minnst í Austurríki, 4,1%.
Atvinnuleysið er mest á Spáni en næstmest á Írlandi, 14,3%. Tekið skal fram að ekki eru birtar tölur fyrir Grikkland.
Í Suður-Kóreu mælist atvinnuleysi 3,1% og er hvergi minna meðal ríkja innan OECD.