Ísland skortir traust

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri.
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Grunnvandinn sem áætlunin um losun gjaldeyrishafta reynir að leysa er skortur á trausti; á innlent efnahagslíf, gjaldmiðil landsins og greiðslugetu ríkissjóðs. Þetta kom fram í máli aðstoðarseðlabankastjóra, Arnórs Sighvatssonar, á fundi Viðskiptaráðs í morgun.

„Traust í samskiptum manna og fyrirtækja, innlendra sem erlendra, er ein dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar. Mikilvægi þessarar auðlindar kemur aðeins fyllilega í ljós þegar hún hefur þornað upp.Ástæða þess að traust gegnir þvílíku lykilhlutverki í gangverki efnahagslífsins er að traust hvers og eins er háð trausti allra hinna.

Áhlaup á innstæður banka og skammtímafjármögnun ríkissjóða á evrusvæðinu nýlega eru skýrt dæmi um þetta. Enginn vill verða síðastur til að ná innstæðu út úr fallvöltum banka, eða til að selja skuldabréf ríkis sem stefnir í greiðsluþrot, eða gjaldeyri þess lands sem stendur frammi fyrir gjaldeyriskreppu og hugsanlega ósjálfbærri skuldabyrði, jafnvel þótt hún sé því aðeins ósjálfbær að aðrir fjárfestar telji hana ósjálfbæra,“ segir Arnór.

Gjaldeyrishöftin stöðvuðu áhlaupið á krónuna

Að sögn Arnórs stöðvuðu gjaldeyrishöftin áhlaupið á gjaldmiðil Íslands. Um leið grófu þau að vissu leyti undan trausti til lengri tíma litið, þ.e.a.s. trausti fjárfesta á að íslenskt efnahagslíf og ríkisfjármál geti náð jafnvægi og sjálfbærni án haftanna, vitandi að hið viðkvæma jafnvægi sem myndast að baki haftanna byggist á því að stór hópur fjárfesta er neyddur til þess að eiga krónueignir.

„Traust á milli aðila í viðskiptum getur nefnilega aðeins myndast í frjálsum viðskiptum, en ekki viðskiptum sem eru þvinguð. Sem betur fer eru þó ekki allir fjárfestar sama marki brenndir. Sumir fjárfestar skilja mæta vel að á bak við rykmökkinn sem þyrlaðist upp við hrun íslenska fjármálakerfisins liggur land umtalsverðrar tækifæra. Hrein skuldastaða landsins gæti orðið lægri en í áratugi, þegar öll kurl verða komin til grafar, og hrein skuldastaða ríkissjóðs, þrátt fyrir háar vergar skuldir, bendir til þess að hægt sé að ná þeim hratt niður aftur, að því tilskildu að haldið verði fast við þá aðhaldsáætlun sem lögð hefur verið fram. Náttúruauðlindir landsins eru óskaddaðar af fjármálahruninu og mannauðurinn að mestu leyti.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er ekki fyrst og fremst skuldavandi heldur greiðsluflæðisvandi, sem að hluta til má rekja til þess að fjárfestar sem eiga frystar krónueignir annað hvort vilja ekki eiga þessar eignir lengur vegna þess að þá skortir traust á íslenskt efnahagslíf, eða geta það ekki vegna þess að reglur eða fjárfestingarstefna sem þeir starfa eftir leyfir það ekki,“ segir Arnór.

Gjaldeyrishöft skaðleg en áætlun um losun þeirra byggð á skynsamlegum rökum

Aðstoðarseðlabankastjóri segir gjaldeyrishöftin skaðleg. „Það vita þeir best sem þurfa að framfylgja þeim. Þau eru enn skaðlegri sé þeim ekki framfylgt. Óþolinmæði þeirra sem vilja sjá tímasettar áætlanir um losun hafta á skemmri tíma en nú er reiknað með er skiljanleg. Tímasett áætlun myndi hins vegar ekki endilega leiða til þess að höftin hyrfu fyrr en ella, a.m.k. ef ekki væri þeim mun ríkari vilji til að taka mikla áhættu. Ég fagna hins vegar uppbygglegri gagnrýni og skoðanaskiptum af því tagi sem þessi fundur er dæmi um og hvet fleiri til að viðra skoðanir sínar.

Áætlunin um losun gjaldeyrishafta er að mínu mati byggð á skynsamlegum rökum, sem ég hef rakið lauslega hér að framan. Hún er hins vegar ekki meitluð í stein og á endanum eru það rök reynslunnar sem mestu máli skipta. Áætlunina má útfæra með ýmsum hætti og laga að reynslunni. Góðar hugmyndir um það eru vel þegnar. Að svo stöddu held ég hins vegar að farsælast sé að fylgja eftir þeirri meginstefnu sem mörkuð hefur verið, með ríkri áherslu á að varðveita gjaldeyrisforðann, stöðugleika fjármálakerfisins og fjármögnun ríkissjóðs,“ sagði Arnór í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs um gjaldeyrishöftin.

Ræða Arnórs Sighvatssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK