Einstaklingar ættu að stefna að því að skulda ekkert þegar þeir fara á eftirlaun. Út frá þessari forsendu ættu þeir ekki að taka hærri langtímalán en sem nemur 1,5-2,5 árslaunum.
Þetta segir í grein á heimasíðu Almenna lífeyrissjóðsins þar sem velt er upp þeirri spurningu hvað fólk geti skuldsett sig mikið.
Í greininni segir að fólk ætti að setja langtímalán í samhengi við laun. Svigrúm til lántöku hækki með auknum launum svo lengi sem neysla aukist ekki í takt við hærri laun. Ágæt viðmiðun fyrir flesta sé að miða við að lán til 25 ára verði ekki hærra en 1,5 til 2,5 árslaun og 40 ára lán 2 til 3 árslaun. Í greininni eru færð rök fyrir því að hjón geti varið 14% til 15% af heildarlaunum til að greiða af langtímalánum eða í húsaleigu.
„Það er stór ákvörðun að taka lán. Skuldari þarf að greiða vexti og afborganir hvernig sem árar og hvort sem hann og/eða maki hans fá laun eða ekki. Þrátt fyrir að núverandi laun og framfærslukostnaður bendi til þess að hægt sé að taka lán yfir 3 árslaunum þá eru lán yfir þeim mörkum orðin mikil skuldbinding sem erfitt getur verið að vinda ofan af.
Almennt ættu einstaklingar ekki að skuldbinda sig meira en sem nemur þremur árslaunum nema að þeir eigi eignir og varasjóð til að mæta áföllum (atvinnumissir, launalækkun, o.fl.) og eru með sérstakar tryggingar til að verja sig og fjölskyldu sína fyrir tekjumissi vegna veikinda, slysa eða fráfalls. Þeir sem telja sig geta keypt dýrar eignir með lántöku vegna hárra tekna ættu frekar að gera það í áföngum og forðast þannig áhættu vegna skuldbindinga sem felast í háum lánum.
Hluti af eftirlaunasparnaði er að greiða niður lán. Fyrir þann sem er hættur að vinna er afar mikilvægt að vera laus við að greiða vexti og afborganir til að eftirlaunin nýtist betur. Eftirlaunaþegar verða líka fyrir óvæntum útgjöldum eins og aðrir. Í þeim tilvikum hafa þeir minna svigrúm en fólk á vinnumarkaði sem getur e.t.v. aukið vinnu tímabundið til að mæta óvæntum útgjöldum.