Mest verðbólga á Íslandi

Verðbólgan er hvergi jafn mikil á EES-svæðinu og á Íslandi.
Verðbólgan er hvergi jafn mikil á EES-svæðinu og á Íslandi. Reuters

Verðbólgan er mest á Íslandi af ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), 5,1%, líkt og undanfarna mánuði. Verðbólgan á evrusvæðinu er 3% og er óbreytt á milli mánaða.

Samræmd vísitala neysluverðs hækkaði um 0,1% á milli október og nóvember síðastliðins á evrusvæðinu en sé tekið mið af öllum ríkjum EES hækkaði hún um 0,2%.

Er tólf mánaða taktur vísitölunnar 3,0% á evrusvæðinu og því óbreyttur frá fyrri mánuði, en 3,4% í ríkjum EES og einnig óbreyttur frá október. Nú hefur verðbólgan, þ.e. tólf mánaða taktur vísitölunnar, verið yfir 2,0% markmiði á evrusvæðinu, sem Evrópski seðlabankinn miðar við að árstaktur verðbólgunnar sé innan við, allt frá því í desember á síðasta ári, að því er fram kemur í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Verðbólgan var næstmest á Bretlandi (4,8%) og í Slóvakíu (4,8%). Hjaðnar árstaktur verðbólgunnar hér á landi annan mánuðinn í röð, en verðbólgan hafði mælst 5,3% í októbermánuði og 5,6% mánuðinn þar á undan m.v. samræmdu vísitöluna. Verðbólgan hefur einnig hjaðnað á Bretlandi á sama tíma en á hinn bóginn aukist í Slóvakíu.

Af löndum EES mælist verðbólgan minnst í nágrannalöndum okkar Svíþjóð (1,1%) og Noregi (1,2%). Samræmd vísitala er einnig birt fyrir Sviss, sem er utan EES, en þar mælist tólf mánaða taktur verðbólgunnar áfram með neikvæðum formerkjum (-0,8%) og er þar með eina landið í Evrópu sem upplifði ástand verðhjöðnunar í nóvember. Ræður styrking svissneska frankans þar töluverðu um, en hann hefur styrkst um rúm 9,1% á milli nóvember fyrir ári og síðastliðins nóvember, samkvæmt Morgunkorni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK