Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, sagði við François Fillon, forsætisráðherra Frakka, í dag að gagnrýni franskra stjórnvalda á bresk efnahagsmál væri „einfaldlega óviðunandi."
François Baroin, fjármálaráðherra Frakklands, lýsti í viðtali í morgun áhyggjum af stöðu efnahagsmála í Bretlandi og sagði að Frakkar væru mun betur settir. François Fillon tók í sama streng á blaðamannafundi í Sao Paolo í Brasilíu í dag og sagði að alþjóðleg matsfyrirtæki virtust ekki taka mið af stöðu breskra efnahagsmála þegar þau gæfu ríkjum lánshæfiseinkunnir.
Evrópska myntin á undir högg að sækja, fyrst og fremst vegna þess að við erum of skuldugir," sagði Fillon. „En við erum ekki þeir einu. Hinir bresku vinir okkar eru jafnvel enn skuldugri og fjárlagahallinn er enn meiri en matsfyrirtækin virðast ekki taka eftir þessu."
Clegg segir í tilkynningu, sem hann sendi frá sér síðdegis, að Fillon hafi hringt í hann til að útskýra ummæli sín. En Clegg segist hafa krafist þess að hin stóru orð yrðu spöruð.