ECB opnar flóðgáttirnar

Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu.
Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu. Reuters

Seðlabanki Evr­ópu opnaði flóðgátt­ir láns­fjár­magns síns í morg­un, til að reyna að gera út af við skuldakrepp­una. Veitti hann metupp­hæð lausa­fjár til banka á evru­svæðinu í morg­un, en markaðssér­fræðing­ar hafa viðrað efa­semd­ir um að það dugi til.

Aðgerðin gekk út á að kaupa 36 mánaða skulda­bréf af bönk­um, á aðeins 1% vöxt­um og keypti bank­inn alls bréf fyr­ir 489,19 millj­arða evra, eða sem nem­ur ríf­lega 78.000 millj­örðum ís­lenskra króna. Til að setja þá upp­hæð í sam­hengi sem hægt er að skilja, þá nem­ur það um það bil 156-föld­um fjár­lög­um ís­lenska rík­is­ins.

Bank­inn mætti allri lausa­fjáreft­ir­spurn bank­anna á evru­svæðinu, en 523 bank­ar sótt­ust eft­ir því að fá að selja bank­an­um skulda­bréf að þessu sinni. Fyrra met í stakri aukn­ingu pen­inga­magns í um­ferð hjá seðlabank­an­um var 442 millj­arðar evra, þegar bank­inn keypti eins árs bréf í júní 2009.

Sér­fræðing­ar höfðu að þessu sinni reiknað með því að bank­ar myndu sækj­ast eft­ir 100-500 millj­örðum evra af lausa­fé og endaði upp­hæðin því í efri mörk­um þeirr­ar spár.

AFP grein­ir frá því að þýsk­ir bank­ar hafi verið dug­leg­ir við að nýta sér til­boð seðlabank­ans. „Þetta hef­ur bætt lausa­fjár­stöðu evr­ópska banka­kerf­is­ins um­tals­vert," er haft eft­ir Michael Kem­mer, yf­ir­manni sam­taka þýskra fjár­mála­fyr­ir­tækja.

Seg­ir Kem­mer að ásamt öðrum aðgerðum seðlabank­ans, sem kynnt­ar voru í síðustu viku, séu þetta bæði rétt og mik­il­væg skref til þess að eyða hætt­unni á lausa­fjár­krísu á evru­svæðinu. Í síðustu viku voru regl­ur um nauðsyn­leg veð til trygg­ing­ar fyr­ir lán­um rýmkaðar og krafa um vara­sjóði banka minnkuð.

„Engu að síður eru þetta bara neyðaraðgerðir, sem geta ekki komið í staðinn fyr­ir virk­an milli­banka­markað," seg­ir Kem­mer.

Tog­streita milli ríkja og banka á evru­svæðinu

Sér­fræðing­ar sem blaðamaður AFP ræddi við í morg­un eru sam­mála Kem­mer. Þeir segja að þetta sýni svo ekki verði um villst að ECB hygg­ist tryggja lausa­fjár­stöðu evr­ópskra banka, en þeir ef­ast um að þetta eyði skuldakreppu ríkj­anna á evru­svæðinu.

Mikið hef­ur verið rætt um að rík­is­stjórn­ir beiti banka inn­an landa­mæra sinna nú þrýst­ingi, til að nota láns­féð frá ECB til þess að kaupa mikið magn rík­is­skulda­bréfa og fjár­magna þannig rík­is­sjóði land­anna. Rík­in þurfa mörg hver að selja gríðarlegt magn skulda­bréfa á næsta ári.

Sér­fræðing­ar telja hins veg­ar að bank­ar muni halda áfram að líta á evr­ópsk rík­is­skulda­bréf sem áhættu­söm og ekki vilja leggja allt fé sitt í þau og jafn­vel þó svo þeir gerðu það þá jafn­ist þess­ar upp­hæðir ekki á við þau kaup og þær trygg­ing­ar sem markaðir hafi verið að von­ast eft­ir frá seðlabank­an­um.

Christian Schulz, aðal­hag­fræðing­ur Beren­berg Bank, seg­ir hins veg­ar að í kjöl­farið á þess­um skulda­bréfa­kaup­um muni gjaldþrot­um fjár­mála­fyr­ir­tækja í Evr­ópu fækka til muna og það muni minnka hætt­una á því að skuldakreppa ríkj­anna versni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK