Seðlabanki Evrópu opnaði flóðgáttir lánsfjármagns síns í morgun, til að reyna að gera út af við skuldakreppuna. Veitti hann metupphæð lausafjár til banka á evrusvæðinu í morgun, en markaðssérfræðingar hafa viðrað efasemdir um að það dugi til.
Aðgerðin gekk út á að kaupa 36 mánaða skuldabréf af bönkum, á aðeins 1% vöxtum og keypti bankinn alls bréf fyrir 489,19 milljarða evra, eða sem nemur ríflega 78.000 milljörðum íslenskra króna. Til að setja þá upphæð í samhengi sem hægt er að skilja, þá nemur það um það bil 156-földum fjárlögum íslenska ríkisins.
Bankinn mætti allri lausafjáreftirspurn bankanna á evrusvæðinu, en 523 bankar sóttust eftir því að fá að selja bankanum skuldabréf að þessu sinni. Fyrra met í stakri aukningu peningamagns í umferð hjá seðlabankanum var 442 milljarðar evra, þegar bankinn keypti eins árs bréf í júní 2009.
Sérfræðingar höfðu að þessu sinni reiknað með því að bankar myndu sækjast eftir 100-500 milljörðum evra af lausafé og endaði upphæðin því í efri mörkum þeirrar spár.
AFP greinir frá því að þýskir bankar hafi verið duglegir við að nýta sér tilboð seðlabankans. „Þetta hefur bætt lausafjárstöðu evrópska bankakerfisins umtalsvert," er haft eftir Michael Kemmer, yfirmanni samtaka þýskra fjármálafyrirtækja.
Segir Kemmer að ásamt öðrum aðgerðum seðlabankans, sem kynntar voru í síðustu viku, séu þetta bæði rétt og mikilvæg skref til þess að eyða hættunni á lausafjárkrísu á evrusvæðinu. Í síðustu viku voru reglur um nauðsynleg veð til tryggingar fyrir lánum rýmkaðar og krafa um varasjóði banka minnkuð.
„Engu að síður eru þetta bara neyðaraðgerðir, sem geta ekki komið í staðinn fyrir virkan millibankamarkað," segir Kemmer.
Togstreita milli ríkja og banka á evrusvæðinu
Sérfræðingar sem blaðamaður AFP ræddi við í morgun eru sammála Kemmer. Þeir segja að þetta sýni svo ekki verði um villst að ECB hyggist tryggja lausafjárstöðu evrópskra banka, en þeir efast um að þetta eyði skuldakreppu ríkjanna á evrusvæðinu.
Mikið hefur verið rætt um að ríkisstjórnir beiti banka innan landamæra sinna nú þrýstingi, til að nota lánsféð frá ECB til þess að kaupa mikið magn ríkisskuldabréfa og fjármagna þannig ríkissjóði landanna. Ríkin þurfa mörg hver að selja gríðarlegt magn skuldabréfa á næsta ári.
Sérfræðingar telja hins vegar að bankar muni halda áfram að líta á evrópsk ríkisskuldabréf sem áhættusöm og ekki vilja leggja allt fé sitt í þau og jafnvel þó svo þeir gerðu það þá jafnist þessar upphæðir ekki á við þau kaup og þær tryggingar sem markaðir hafi verið að vonast eftir frá seðlabankanum.
Christian Schulz, aðalhagfræðingur Berenberg Bank, segir hins vegar að í kjölfarið á þessum skuldabréfakaupum muni gjaldþrotum fjármálafyrirtækja í Evrópu fækka til muna og það muni minnka hættuna á því að skuldakreppa ríkjanna versni.