Greiningardeild Arion banka segir, að erfitt sé að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað valdi jafn mikilli hækkun á mat og drykkjarvörum nú og raun beri vitni. En væntanlega séu kaupmenn að nýta jólamánuðinn til að velta kostnaðarhækkunum fyrr á árinu yfir á neytendur.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni í morgun hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 1,7% milli nóvember og desember.
Arion banki segir, að uppsöfnuð þörf innlendra framleiðenda til að velta hrávöruhækkunum yfir á neytendur kunni að skýra það mikla stökk sem nú verði í matarliðnum í desembermánuði. Framleiðendur virðist eiga auðveldara með að hækka verð sín yfir hátíðirnar og neytendur setji verðhækkanir eflaust síður fyrir sig þegar kaupa á í jólamatinn.