Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), mun skila gögnum sem hald var lagt á í húsleit á skrifstofu kaupsýslumannsins Vincents Tchenguiz. Viðurkennir SFO að ákveðin mistök hafi verið gerð við rannsóknina en Tchenguiz var handtekinn ásamt bróður sínum, Robert, í tengslum við viðskipti við Kaupþing.
Níu mánuðir eru síðan þeir bræður voru handteknir auk sjö annarra og færðir til yfirheyrslu í umfangsmiklum aðgerðum á vegum SFO í Lundúnum í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á aðdraganda falls Kaupþings.
Í bréfi sem SFO sendi til Vincents Tchenguiz í gær kemur fram að mistök hafi verið gerð og ekki hafi réttar upplýsingar legið fyrir þegar handtökuskipunin var gefin út. Gögn bendi til þess að handtökuskipunin hafi ekki verið byggð á réttum gögnum og því hefði ekki átt að gefa hana út.
Húsleit var gerð hjá tveimur fyrirtækjum og á heimilum átta einstaklinga. Embætti sérstaks saksóknara, sem unnið hefur með SFO undanfarin misseri, aðstoðaði við aðgerðirnar.
Aðgerðirnar eru liður í rannsókn SFO á greiðu aðgengi bræðranna Roberts og Vincents Tchenguiz að lánsfé hjá hinum fallna banka. Þeir voru báðir handteknir og yfirheyrðir. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér kveðast þeir þess fullvissir að rannsóknin muni ekkert misjafnt leiða í ljós.
Samkvæmt heimildum breska blaðsins Telegraph ætlar SFO ekki að hætta rannsókn á viðskiptum þeirra bræðra og hefur óskað eftir því að hluti þeirra gagna sem hald var lagt á við húsleitirnar verði geymd áfram og skilað síðan í janúar.
Bæði Vincent and Robert Tchenguiz kærðu handtökurnar og húsleitirnar. Vitnaleiðslur í málinu eru boðaðar í febrúar þar sem kærur þeirra verða teknar fyrir.
Í síðustu viku hótuðu fjárfestingafélög í eigu Tchenguiz fjölskyldunnar SFO málsókn og að farið yrði fram á 100 milljónir punda í skaðabætur fyrir tafirnar á málinu. Fasteignafélag Vincents Tchenguiz, Peverel, fór í skiptameðferð einungis nokkrum dögum eftir að hann var handtekinn.
Í fréttaskýringu sem birtist í Morgunblaðinu í mars sl. kom fram að tveir fyrrverandi stjórnenda Kaupþings, þeir Sigurður Einarsson, sem var stjórnarformaður, og Ármann Þorvaldsson, sem stýrði rekstri bankans í Bretlandi, voru handteknir í aðgerðunum. Auk þeirra voru þeir Guðmundur Þór Gunnarsson, sem var viðskiptastjóri gagnvart Tchenguiz-bræðrunum, Bjarki Diego, sem stýrði útlánasviði bankans, og Guðni Níels Aðalsteinsson, sem var yfir fjárstýringu, allir handteknir.
Vincent Tchenguiz fagnar ákvörðun SFO í viðtali við Telegraph í gærkvöldi en það dragi úr gleði hans hversu langan tíma þetta hafi tekið.