Aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópu, Jürgen Stark, varar við því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði látinn bjarga illa stöddum ríkjum á evru-svæðinu.
Í viðtali við Die Welt í dag segir Stark, sem brátt lætur af störfum hjá bankanum, að með því að láta AGS sjá um björgunina sé verið að fara á skjön við reglur sem gilda um beina fjármögnun í Evrópu. Óskað hefur verið eftir því að ríki leggi sjóðnum til meira fé, svo sjóðurinn geti gripið til aðgerða í ríkjum á evru-svæðinu sem berjast við gríðarlegar skuldir.
Segir hann að með þessu sé verið að fara á skjön við reglur um beina fjárhagslega styrki til ríkja innan evru-svæðisins. Þrátt fyrir að það komi ekki beint fram, þá snúist þetta um að veita þeim stuðning, því ljóst sé að það séu evru-ríkin sem eigi eftir að fá peningana.