Stjórnvöld í Singapúr ætla að lækka laun forsætisráðherrans, Lee Hsien Loong, um þriðjung hið minnsta en þrátt fyrir launalækkun verður hann áfram hæst launaði stjórnmálamaðurinn í heiminum.
Lee Hsien Loong, sem hét því á síðasta ári er hann var endurkjörinn, að hann myndi taka á sig launalækkun, mun lækka í launum um 36%. Verða laun hans 1,69 milljónir Bandaríkjadala, 207 milljónir króna, á ári. Jafnframt verða laun annarra ráðherra lækkuð en allir fá þeir bónusgreiðslu sem nemur þriggja mánaða launum ef þeir ná markmiðum um hagvöxt, minna atvinnuleysi og auknar tekjur ríkissjóðs.
Sem dæmi má nefna að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er með 400 þúsund dali í árslaun sem er minna en ráðherrar í Singapúr fá á ári.
Æðsti embættismaður Hong Kong, Donald Tsang, er með 543.500 Bandaríkjadali í árslaun og forsætisráðherra Japans er með um 513 þúsund dali í árslaun.