Fréttir af óvæntri heimsókn forsætisráðherra Ítalíu, Marios Montis, til Brussel í dag hafði mikil áhrif á hlutabréfamarkaði í Evrópu og virtist engu skipta þótt heimildir úr stjórnkerfi Ítalíu hermi að Monti hafi einungis farið til Brussel í einkaerindum.
Monti, sem mun eiga fund með forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, í París á morgun, var ekki á leið til Brussel samkvæmt opinberri dagskrá forsætisráðherrans.
Áhrifin voru einna mest í kauphöllinni í Mílanó þar sem hlutabréfavísitalan féll um 3,65%. Þar skipti miklu að ítalski bankinn UniCredit boðaði að verð á hlutabréfum bankans í fyrirhuguðu hlutafjárútboði yrði 43% undir markaðsverði. Lækkuðu hlutabréf UniCredit um 17% í dag.
Í Madríd lækkaði hlutabréfavísitalan um 2,94% og í Lundúnum lækkaði FTSE-vísitalan um 0,78%. Í París lækkaði CAC-vísitalan um 1,53% og í Frankfurt lækkaði DAX-vísitalan um 0,25%.