Ísland er eitt af þeim tíu löndum í heiminum þar sem best er að stofna fyrirtæki samkvæmt könnun Alþjóðabankans. Í umsögninni um Ísland segir að hér hafi lög til að vernda fjárfesta verið bætt, þar á meðal með því að gera það auðveldara að fá leyfi fyrir viðskiptum tengdra aðila.
Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Alþjóðabankans sem nefnist „Doing business“ en bandaríski vefmiðillinn Huffington Post segir frá niðurstöðum hennar. Þar eru kannaðir tíu þættir sem ráða úrslitum um hversu auðvelt það er að hefja fyrirtækjarekstur í hverju landi.
Það eru þættir á borð við hversu auðvelt er að fá byggingarleyfi, skrá eignir, fá lán, borga skatta og svo framvegis. Í efsta sæti samkvæmt mati Alþjóðabankans er Singapúr en þar á eftir koma Hong Kong, Nýja-Sjáland og Bandaríkin.