Ítalía er það ríki innan evrusvæðisins sem veldur matsfyrirtækjum mestum áhyggjum vegna mikilla skulda ríkissjóðs. Fitch Ratings útilokar ekki að lánshæfiseinkunn Ítalíu verði lækkuð fyrir lok janúarmánaðar.
Þetta kom fram í máli Davids Rileys, framkvæmdastjóra hjá Fitch, á blaðamannafundi í dag.
Hann varar einnig við því að ekki sé loku fyrir það skotið að Grikkland yfirgefi evrusvæðið í ár.
Riley segir að ástandið í ríkisfjármálum Ítalíu sé eldfimt en ríkissjóður þurfi að útvega sér gríðarlega mikið lánsfé á næstu mánuðum. Ítalía er nú með einkunnina A+ hjá Fitch.
Í síðasta mánuði varaði Fitch við því að sex ríki á evrusvæðinu, Spánn, Ítalía, Belgía, Slóvenía, Kýpur og Írland, ættu það á hættu að lánshæfiseinkunn þeirra yrði lækkuð.