Fjármálaráðuneytið hefur birt hluthafasamninga, sem ríkið gerði við gömlu bankana um hlutafjáreign í Landsbankanum hf., Íslandsbanka hf. og Arion banka hf.
Hlutafjárframlög ríkisins vegna bankanna þriggja nema um 135 milljörðum króna á móti 156 milljarða hlutafjárframlagi annarra hluthafa.
Fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins, að um miðjan október 2011 hafi borist beiðni til fjármálaráðuneytisins þar sem óskað var eftir aðgangi að hluthafasamkomulaginu um alla bankana.
Ráðuneytið segist hafa lagt mat á eðli þeirra upplýsinga sem koma fram í efni hluthafasamkomulagsins, m.t.t. upplýsingalaga, þar sem upplýsingarnar höfðu ekki verið birtar áður. Þá sé stjórnvöldum óheimilt að veita aðgang að upplýsingum sem varða viðskipta- og fjárhagsmálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, án ótvíræðs samþykkis þess sem í hlut á, hvort sem um sé að ræða einstaklinga eða lögaðila.
Því hafi ráðuneytið óskað eftir afstöðu annarra hluthafa og bankanna sjálfra til þess hvort veita skyldi aðgang að umræddum skjölum í heild sinni. Ráðuneytinu hafi nú borist svör frá hluthöfum og bönkunum sem um ræðir og séu samningarnir því birtir.