Í könnun sem Gallup International gerði í lok síðastliðins árs meðal 51 ríkis er Ísland í fjórða sæti yfir þau sem taka stærsta stökkið frá svartsýni á efnahagsástandið yfir í bjartsýni.
Spurt var hvort viðkomandi teldi að aðstæður í efnahagslífinu myndu verða betri, óbreyttar eða verri á árinu 2012. Af þeim sem svöruðu sögðu 11% að efnahagsástandið myndi batna, 42% að það myndi versna og 46% að það héldist óbreytt. Munurinn á þeim sem telja að ástandið muni versna og þeirra sem telja að það muni batna er -31 en var -51 í könnun Gallup fyrir ári. Stökkið upp á 21 prósentustig er það fjórða stærsta á lista Gallup en fyrir ofan okkur er Kólumbía, Kamerún og Azerbaijan, samkvæmt Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Mest lækkun í ríkjum innan ESB
Þau lönd sem aftur á móti lækka mest eru Belgía (-53), Austurríki (-53), Svíþjóð (-51) og Þýskaland (-42). Það vekur athygli, en kemur ekki á óvart, að þessi lönd eru öll innan Evrópusambandsins og þrjú af þeim eru innan evrunnar. Hagvaxtarhorfur í þessum löndum hafa versnað til muna undanfarið tengt þeirri ríkisfjármálakreppu sem hefur verið að grafa um sig á svæðinu.