Einkaneyslan hefur áfram að aukast

Reuters

Ágætis vöxtur var í einkaneyslu á síðasta fjórðungi nýliðins árs ef marka má kortaveltutölur Seðlabankans fyrir desembermánuð sem birtar voru í gær.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka kemur fram að samanlögð raunbreyting kredit- og debetkortaveltu einstaklinga í innlendum verslunum gefur góða mynd af þróun einkaneyslu hérlendis. Þó var vöxturinn milli ára í desember nokkru hægari en hann var lungann af nýliðnu ári, eða sá minnsti frá því í mars síðastliðnum.

Þannig jókst kortavelta einstaklinga í innlendum verslunum um 3,1% að raungildi m.v. þróun vísitölu neysluverðs án húsnæðis í desember síðastliðnum frá sama mánuði árið 2010, en að meðaltali hafði vöxturinn, mældur með þessum hætti, verið 6,4% frá því í mars síðastliðnum.

„Þó er ekki hægt að segja annað en að ágætis vöxtur hafi verið á fjórða ársfjórðungnum frá sama tímabili árið 2010, en hann nam 5,7% sem er aðeins meira en hann var á fyrstu þremur fjórðungum ársins að jafnaði. Sé tekið mið af árinu 2011 í heild eyddu Íslendingar um 4,6% meiru í innlendum verslunum samanborið við fyrra ári. Benda tölurnar því til þess að einkaneyslan á nýliðnu ári hafi vaxið um ríflega 4% frá árinu 2010, og er það heldur meiri vöxtur en við gerðum ráð fyrir í spá okkar fyrir árið (3,2%), sem og Seðlabanki Íslands reiknaði með í nýjustu spá sinni (2,9%)," segir í Morgunkorni.

Kortavelta Íslendinga í útlöndum hélt áfram að aukast í desember síðastliðnum milli ára líkt og verið hefur allt frá því í október árið 2009.

„Er þetta í takti við tölur Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga erlendis sem hefur stöðugt fjölgað milli ára allt frá því í nóvember 2009, að apríl 2010 undanskildum þegar eldgosið í Eyjafjallajökli var í hámarki.

Þó var aukningin í desember frá sama tíma árið á undan heldur minni en hún verið hefur, eða sem nemur 4,0% að raungildi miðað við þróun gengisvísitölunnar. Til samanburðar má nefna að fyrstu ellefu mánuði ársins jókst kortavelta Íslendinga erlendis í mánuði hverjum frá sama tíma árið á undan að meðaltali um 23,7%, og í raun er vöxturinn í desember sá hægasti frá því í febrúar árið 2010.

Engu að síður er vöxturinn myndarlegur á síðasta fjórðungi ársins frá sama tímabili 2010, eða sem nemur rúmum 9,7%, og sé m.v. árið í heild nemur aukningin 20% frá fyrra ári. Samkvæmt þessu virðist landinn hafa gert betur við sig á nýliðnu ári erlendis en árið þar á undan, en samkvæmt tölum Ferðamálastofu fóru 16% fleiri Íslendingar til útlanda í fyrra en árið 2010," segir enn fremur í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK