Lánshæfismat evruríkja lækkað

Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur ákveðið að lækka lánshæfieinkunn fjölda Evrópuríkja, sem eru á evrusvæðinu svonefnda, þar á meðal Frakklands, Austurríkis, Ítalíu, Spánar og Portúgals. 

Standard & Poor's staðfesti á vef sínum í kvöld, að einkunnir Frakklands og Austurríkis hefðu verið lækkaðar úr  AAA í AA+ með neikvæðum horfum. Einnig tilkynnti fyrirtækið að einkunn Ítalíu hefði verið lækkuð um tvö stig, úr A í BBB+, og einkunn Spánar hefði verið lækkuð úr AA- í A.

Þá var einkunn Portúgals lækkuð um tvö stig, í BB, með neikvæðum horfum. Einkunn Kýpur var lækkuð um tvö stig í BB+ með neikvæðum horfum, einkunn Slóveníu lækkuð um eitt stig í A+ með neikvæðum horfum og einkunn Slóvakíu lækkuð um eitt stig í A með stöðugum horfum. Einnig var einkunn Möltu lækkuð.

Einkunnir Þýskalands (AAA), Finnlands (AAA), Hollands (AAA), Lúxemborgar (AAA), Eistlands (AA-), Belgíu (AA), og Írlands (BBB+) eru óbreyttar en horfur eru neikvæðar hjá öllum löndunum nema Þýskalandi þar sem horfur eru stöðugar. 

Standard & Poor's segir, að nýr sáttmáli um ríkisfjármál, sem Evrópuríki eru að semja um, nægi ekki til að vinna á vandamálum á evrusvæðinu og of víðtækur niðurskurður ríkisfjármála geti leitt til samdráttar einkaneyslu og skatttekna.

Segir fyrirtækið, að breytingarnar á lánshæfiseinkunnum evruríkjanna endurspegli m.a. það viðhorf, að virkni og stöðugleiki pólitískra stofnana við stefnumótun vegna vandamálanna á evrusvæðinu hafi ekki staðið undir væntingum. 

Gengi evrunnar lækkaði mikið á gjaldeyrismörkuðum síðdegis eftir að fréttir bárust af því að S&P ætlaði að svipta Frakka og Austurríkismenn AAA einkunninni, sem ríkissjóðir þessara landa hafa haft.

„Þetta eru ekki góðar fréttir en þetta er ekki katastrófa," sagði François Baroin, fjármálaráðherra Frakka, þegar hann staðfesti í kvöld að einkunn Frakklands yrði lækkuð. „En það eru ekki matsfyrirtækin, sem ákveða stefnu Frakklands," bætti hann við. 

Lánshæfiseinkunn Þýskalands er áfram AAA og þarlend stjórnvöld komu nágrönnum sínum til varnar. „Frakkar eru á réttri leið," sagði Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, í kvöld.

Ákvarðanir S&P kunna að hafa neikvæð áhrif á björgunarsjóð evrusvæðisins, (EFSF) sem treystir á að stærstu hagkerfin á evrusvæðinu njóti trausts á fjármálamörkuðum. Verði lánshæfiseinkunn björgunarsjóðsins sjálfs lækkuð í kjölfarið mun lántökukostnaður hans aukast. Sjóðurinn er nú með einkunnina AAA.   

„Það er hætta á að EFSF missi þrefalda A-ið. Það yrði alvarlegt vandamál," hefur AFP fréttastofan eftir ónafngreindum embættismanni sem benti jafnframt á, að Frakkar legðu sjóðnum til fimmta hluta af fjármagninu, sem hann ræður yfir.

AFP hefur eftir sérfræðingnum Veronique de Rugy, að lækkun lánshæfismats Frakklands gæti leitt til þess að lánasvigrúm björgunarsjóðsins minnkaði um sem svaraði til milljarða dala og auka jafnframt verulega líkurnar á að Grikkland lendi í greiðslufalli. Það gæti síðan haft alvarlegar afleiðingar fyrir evrusvæðið og í raun ógnað tilvist þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK