Fancois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, sagði á blaðamannafundi í dag að búast hefði mátt við lækkun lánshæfis Frakka og ríkisstjórn hans væri tilbúin að grípa til aðgerða við "aðlögun" fjárhagstjórnarinnar ef með þyrfti. Hvorki ætti að gera of mikið né of lítið úr lækkun Standard og Poor's í gær á lánshæfi Frakklands.
Fillon tók fram að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefði gripið til gegn skuldavandanum væru nægilegar og að hægt væri að endurskoða þær þegar komin væri betri yfirsýn yfir hagvöxtinn.
Standar og Poor's lækkuðu lánshæfiseinkunn Frakklands í gær úr þreföldu A-i niður í AA+. Einkunnin hafði verið óbreytt frá í júní 1976.