Fréttaskýring: Tvöfalt áfall fyrir Evrópu

Ráðamönnum í París var tilkynnt hið ómflýjanlega í gær þegar bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor's ákvað að lækka AAA-lánshæfiseinkunn Frakklands í AA+ með neikvæðum horfum. Matsfyrirtækið ákvað að lækka lánshæfiseinkunn fjölda annarra evruríkja, þar á meðal Austurríkis, Ítalíu, Spánar og Portúgals.

Einkunn Ítalíu var lækkuð um tvö stig, úr A í BBB+. Hins vegar mun hæsta lánshæfiseinkunn Þýskalands, Finnlands, Lúxemborgar og Hollands haldast óbreytt. Gengi evrunnar og evrópskra hlutabréfavísitalna lækkaði verulega þegar fréttir bárust af því að ákvörðun S&P væri yfirvofandi.

Þrátt fyrir að um sé að ræða mikið áfall fyrir Frakkland – bæði pólitískt og efnahagslegt – var ákvörðun S&P viðbúin. Sá stöðugleikasáttmáli á sterum, sem samþykktur var á leiðtogafundi Evrópusambandsins í síðasta mánuði, hefur verið gagnrýndur fyrir að taka ekki á þeim bráðavanda sem steðjar að mörgum aðildarríkjum myntbandalagsins. Þetta hefur S&P meðal annars bent á og fært rök fyrir því að samfara niðursveiflu í efnahagslífinu séu umbætur sem miða fyrst og fremst að því að auka aðhald í ríkisfjármálum sjálfseyðandi og grafi undan vaxtahorfum meðal aðildarríkja evrunnar.

Áhrif á björgunarsjóð ESB

Fjárhagsleg geta björgunarsjóðs ESB gæti sömuleiðis verið í uppnámi í kjölfar þess að Frakkland missi hæstu lánshæfiseinkunn. Sjóðurinn á að gegna því hlutverk að veita skuldsettustu ríkjum evrusvæðisins tímabundið fjárhagslegt skjól með því að kaupa af þeim ríkisskuldabréf.

Lægri lánshæfiseinkunn Frakklands og Austurríkis mun hafa bæði bein og óbein áhrif á fjármögnunarvanda verst stöddu evruríkjanna: fjármögnunarkostnaður björgunarsjóðsins mun aukast og fjárfestar eiga í vaxandi mæli eftir að forðast að kaupa ótryggari skuldabréf sjóðsins.

Grikkland á bjargbrúninni

Slæmar fréttir bárust einnig frá Aþenu í gær þegar greint var frá því að slitnað hefði upp úr viðræðum milli Grikkja og stórra lánardrottna gríska ríkisins um afskriftir lána. Alþjóðafjármálastofnunin (IIF) sem tók þátt í viðræðunum fyrir hönd stórra alþjóðlegra banka, segir að ekki hafi náðst samkomulag um þá tillögu, sem lá fyrir, að bankarnir afskrifuðu helming lána til gríska ríkisins.

Þrátt fyrir yfirlýsingar grískra stjórnvalda um að viðræðurnar gætu hafist að nýju í næstu viku þá mátti merkja mun neikvæðari tón frá talsmönnum bankanna. Skammur tími er til stefnu en í marsmánuði þurfa grísk stjórnvöld að standa skil á skuldabréfaláni upp á 14,4 milljarða evra.

Fáist ekki niðurstaða fljótt eru líkur á því að Grikkir verði fyrsta vestræna ríkið í meira en sextíu ár til að lýsa yfir allsherjar greiðsluþroti.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti er með vindinn í fangið.
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti er með vindinn í fangið. reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK