Reiknistofa bankanna (RB) fékk undir lok árs formlega staðfestingu á því að fyrirtækið uppfylli PCI-DSS staðalinn. RB er þar með einn af fyrstu aðilum á Íslandi sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru vegna slíksstaðals.
PCI-DSS er skammstöfun fyrir alþjóðlegan staðal sem kortafyrirtæki í heiminum hafa komið sér saman um til að tryggja öryggi kortagagna (e. Payment Card Industry Data Security Standard.) Staðall þessi er sérstaklega ætlaður þeim fyrirtækjum sem meðhöndla greiðslukortaupplýsingar en sífellt strangari kröfur eru gerðar til aðila sem hafa umsjón með slíkum upplýsingum, að því er segir í tilkynningu.
RB hóf undirbúning að ferlinu árið 2007 en eiginleg vinna vegna staðalsins hófst nokkru síðar. Félagið hefur lagt í mikla vinnu og fjárfestingar til að uppfylla þau ströngu skilyrði sem gerð eru vegna staðalsins. Áætlað er að um 13 þúsund vinnustundir hafi farið í þetta ferli hjá RB. Þá fjárfesti félagið bæði í hug- og vélbúnaði til að geta mætt þeim kröfum sem PCI-DSS staðallinn kveður á um.