Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að félagið FI fjárfestingar ehf., sem er í eigu Hannesar Smárasonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Glitnis banka.
Félagið, sem áður hét Fjárfestingafélagið Primus ehf., fékk tvö lán hjá Glitni í lok ársins 2007. Þau lán standa nú í 6 milljörðum króna. Hannes gekkst í 400 milljóna króna sjálfskuldarábyrgð vegna lánanna og fellur hún því á hann þar sem þrotabú félagsins á ekki fyrir skuldum.
Gert var árangurslaust fjárnám hjá FI fjárfestingum í júní í fyrra og á grundvelli þess krafðist Glitnir gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur féllst á þá kröfu í desember en FI fjárfestingar töldu, að ekki hefði verið farið eftir ákvæðum laga en ekki tókst að hafa upp á Hannesi, sem er skráður með dvalarstað í Bretlandi.