Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, flytur ávarp við upphaf efnahagsráðstefnunnar í Davos í Sviss í næstu viku.
Auk Merkel munu meðal annars forsætisráðherra Bretlands, David Cameron og fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner, taka til máls á ráðstefnunni sem hefst hinn 25. janúar og stendur yfir í fimm daga.
Fastlega er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, verði á ráðstefnunni sem og Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon og framkvæmdastjóri Heimsviðskiptastofnunarinnar, Pascal Lamyn.
Forsvarsmenn ráðstefnunnar segja að í ár verði sjónum beint að mótun nýrra módela. Segir þýski hagfræðiprófessorinn Klaus Schwab, sem er stofnandi og stjórnarformaður ráðstefnunnar, að nauðsyn sé að fara vandlega yfir stöðu kapítalismans. „Kapítalismi, í núverandi birtingarmynd, passar ekki inn í þann heims sem við búum í. Okkur hefur mistekist að læra af fjármálakreppunni árið 2009," segir Schwab.
Gestir á ráðstefnunni verða væntanlega yfir 2.500 talsins auk þess sem nokkur hundruð blaðamenn munu fylgjast með henni.