Enginn árangur varð af viðræðum sem staðið hafa yfir í Aþenu um lækkun skulda Grikklands. Formaður samninganefndar Alþjóðasamtaka banka (IIF) yfirgaf borgina óvænt í morgun án þess að tilkynnt hafi verið um samkomulag.
Forystumenn Evrópusambandsins komust að samkomulagi á síðasta ári um að 50% af skuldum Grikklands yrðu afskrifaðar. Eftir er hins vegar að ná samkomulagi um útfærslu á skuldaniðurfærslunni.
Talsmaður Alþjóðasamtaka banka sagði í dag að þó að ekki hefði tekist að ná samkomulagi myndu viðræður halda áfram í gegnum símafundi.
Grikkir höfðu vonast eftir að samkomulag næðist um helgina um hvernig ætti að útfæra afskriftir skulda. Fjármálaráðherrar ESB koma saman til fundar á morgun. Fyrst ekkert samkomulag liggur fyrir um tæknilegar útfærslur á skuldaniðurfærslunni eru litlar líkur taldar á málið verði afgreitt á fundinum.
Viðræðurnar snúast bæði um umfang skuldaniðurfærslunnar og einnig um vaxtastig nýrra lána sem veitt verða.
Í frétt BBC segir að talið sé að nokkrir vogunarsjóðir standi í vegi fyrir því að samkomulag takist. Ástæðan sé annað hvort sú að þeir séu ósáttir við hversu mikið eigi að afskrifa eða að þeir ætli sér að hagnast á þessari aðgerð.