Ræða evruvandann í Davos

Vandi evruríkjanna er ofarlega á baugi á alþjóðlegu ráðstefnunni í Davos í Sviss, World Economic Forum, sem sett var í dag. Standa vonir til að vandinn leysist en hann haldi enn aftur af efnahagsframförum í heiminum.

Ráðstefnan er haldin ár hvert í Davos og er þetta 42. árið sem hún fer fram og stendur í fimm daga. Auk evruvandans verður framtíð kapítalismans rædd, uppgangurinn í Kína og afleiðingar af tíðum mótmælum víða um heim.

Aðstandendur ráðstefnunnar búast við um 2.600 þátttakendum, þar á meðal um 40 þjóðarleiðtogum og 19 af 20 áhrifamestu seðlabankastjórum heims. En auk þeirra mæta embættismenn víða að og sumir af forstjórum stærstu fyrirtækja heimsins auk fjölda annarra áhrifamanna. Ráðstefnan vekur alla jafna mikla athygli og hana sækja nokkur hundruð blaðamenn.

Ráðstefnunni er ekki ætlað að finna endanlegar lausnir eða niðurstöður í málum, en áhrif hennar eru þó víðtæk og þar eru jafnan rædd málefni sem brenna á víða í heiminum. Ráðstefnan er jafnframt sögð góður vettvangur fyrir áhrifamenn í viðskiptum og stjórnmálum til að hittast og bera saman bækur sínar, fá hugmyndir hver frá öðrum og styrkja tengslin.

Þess má geta að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sótti ráðstefnuna í Davos í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK