Birgjar mismuna verslunum

Bónus er ein fjölmargra verslana Haga
Bónus er ein fjölmargra verslana Haga mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Svo mikill munur er oft á verði frá birgjum til lágverðsverslana að hinar síðari þurfa að selja vöruna með lítilli sem engri álagningu eða með tapi til að geta átt í samkeppni við stærri keðjur. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins bendir til þess að talsverðar aðgangshindranir séu að dagvörumarkaði. Eiga þessar hindranir ekki síst rót sína að rekja til mismunandi kjara sem dagvöruverslanir njóta hjá birgjum. Þrjár stórar verslanasamstæður, Hagar, Kaupás og Samkaup, hafa um 90% markaðshlutdeild á dagvörumarkaði.

Páll Gunnar sagði oft vandasamt að greina málefnalegan verðmun frá ómálefnalegum, en að leiða megi að því sterkar líkur að verðlagning styðjist ekki alltaf við viðskiptalegar forsendur. Verslanir sem ekki eru hluti af ofangreindum verslanasamstæðum greiða birgjum mun hærra verð fyrir vörur, eða að meðaltali 15% hærra verð en stærsta verslanasamstæðan, Hagar, greiðir.

Minni verslanir verða því að keppa á grundvelli annarra þátta en verðs til að laða til sín viðskiptavini, svo sem hagfelldu samblandi verðstefnu, þjónustu, vöruúrvals og staðsetningar. Slík fjölbreytni í framboði dagvöruverslana getur vissulega verið neytendum til góðs. Vandi þeirra liggur hins vegar í auknum styrk lágverðsverslana, en hlutur þeirra af heildarveltu á dagvörumarkaði hefur hækkað úr um 20% árið 1999 í um 63% árið 2010. Aðrar verslanir sem ekki njóta sambærilegra viðskiptakjara og lágverðsverslanir hjá birgjum eiga því takmarkaða möguleika á að stunda verðsamkeppni á stærstum og vaxandi hluta markaðarins.

Samkeppniseftirlitið mun að sögn Páls Gunnars fylgja þessum niðurstöðum eftir og rannsaka hvort viðskiptakjör tiltekinna birgja séu ólögleg. Páll Gunnar sagði mikilvægt að aðilar á dagvörumarkaði skoðuðu vel starfshætti sína, en ekki væri síður mikilvægt að stjórnvöld væru dugleg að grípa til aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK