Þýskaland vill að ESB taki yfir fjármál Grikklands. Þetta kemur fram í frétt í Financial Times. Stjórnvöld í Þýskalandi telja þetta bestu leiðina til að tryggja að þau skilyrði sem sett verða fyrir skuldalækkun gangi eftir.
Nú er unnið að því að útfæra afskriftir skulda Grikklands sem leiðtogar ESB samþykktu á síðasta ári. Rætt er um að um 70% skulda Grikklands, eða um 130 milljarðar evra, verði afskrifuð.
Ef tillögunni verður hrundið í framkvæmd fæli það í sér algerlega nýtt skref í valdaframsali frá þjóðríki til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Tillagan felur í sér að ESB fengi neitunarvald varðandi fjárlagafrumvarp Grikklands ef það er ekki í takti við markmið sem leiðtogar sambandsins setja. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjármálaráðherrar evrulandanna tilnefni umsjónarmann sem fylgist með öllum stærri ákvörðunum í sambandi við útgjöld.
Í tillögunni segir að árangur stjórnvalda í Grikklandi við að ná tökum á ríkisfjármálum landsins sé með þeim hætti að Grikkland verði tímabundið að fallast á að gefa frá sér sjálfsforræði í fjárlagagerð.
Í nóvember tók Lucas Papademos við embætti forsætisráðherra í Grikklandi, en hann var áður embættismaður í Brussel. Talið var að ESB hefði átt stóran þátt í þessari ráðstöfun. Árangur stjórnar Papademos þykir hins vegar lítill og raunar hafi ástandið aðeins haldið áfram að versna.