Hagfræðideild Landsbankans telur að endurgreiðsla Arion-banka til skilvísra viðskiptavina geti haft áhrif til hækkunar á verðbólgu á Íslandi.
Segir í Vegvísi hagfræðideildarinnar að heildarendurgreiðslan nemi um 2,5 milljörðum króna. Stór hluti þessarar fjárhæðar mun væntanlega koma fram í aukinni einkaneyslu á fyrsta fjórðungi ársins með tilheyrandi verðbólguþrýstingi, segir í Vegvísi.
Deildin nefnir fleiri atriði sem gætu valdið þrýstingi á verðlag á næstu mánuðum. Útsöluáhrif byrja að fjara út í febrúar með tilheyrandi hækkun á vísitölu neysluverðs í kjölfarið. Mikil óvissa ríki um olíuverðsþróun á næstu mánuðum, en fari ástandið í Miðausturlöndum úr böndunum gæti olíuverð hækkað hratt.
Eins hafi gengisvísitalan hækkað um tæp 4% á síðustu þremur mánuðum. Gangi sú hækkun ekki til baka má ætla að hluti hennar skili sér út í verðlag á næstu mánuðum. Samningsbundnar launahækkanir sem koma til framkvæmda nú um mánaðamótin nema um 3,5%.
Vegvísir hagfræðideildar Landsbankans í heild