Íslenskir neytendur virðast nú vænta betri tíðar ef marka má væntingavísitölu Gallup, sem birt var í morgun. Vísitalan hækkaði um 7,5 stig milli mánaða eða um 11%. Er hún nú 75 stig og hefur ekki verið hærri frá því í september 2008.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, að vísitalan nú í janúar sé 13,5 stigum hærri en í janúar 2011. Væntingar neytenda hafi aukist samfellt undanfarna þrjá mánuði sem sé í takt við bata í efnahagslífinu almennt. Þá séu þeir, sem telja að ástandið í efnahagsmálum verði betra að hálfu ári liðnu, fleiri en þeir sem eru neikvæðir.
Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu frá fyrri mánuði og eru landsmenn því nú jákvæðari en í fyrri mánuði varðandi bæði mat á núverandi ástandi og mat á efnahagslífinu almennt. Mest hækkar undirvísitalan sem mælir mat neytenda á atvinnuástandinu. Sú vísitala hækkar um 14,4 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 81,7 stig. Hefur hún ekki verið hærri frá því fyrir hrun.
Engu að síður eru þeir svartsýnu áfram fleiri en þeir bjartsýnu en þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri svartsýnir en bjartsýnir. Vísitalan hefur verið undir 100 stigum samfellt undanfarin fjögur ár.
Greining Íslandsbanka segir, að ekki þurfi að koma á óvart að svartsýnir séu enn í meirihluta þrátt fyrir teikn um efnahagsbata enda séu enn blikur á lofti í hagkerfinu, krónan að veikjast, verðbólgan að aukast, atvinnuleysi sé enn hátt og mikil óvissa ríki um horfurnar framundan í öllum helstu nágrannaríkjum.