Þegar írska bankakerfið hrundi fyrir þremur árum gekk sá brandari víða að eini munurinn á Íslandi og Írlandi væri einn bókstafur og sex mánuðir. Nú hefur Írlandi aftur verið stillt upp við hlið Íslands til samanburðar, en í þetta sinn eru líkindin jákvæð, að sögn Reuters.
Af veikustu hlekkjum Evrópu, þ.e. Portúgal, Ítalíu, Grikklandi, Spáni, Ítalíu og Írlandi, er Írland það eina sem spáð er vexti í vergri landsframleiðslu á þessu ári. Í greiningu Reuters segir hinsvegar að andstætt Íslandi, þar sem gjaldfelling krónunnar hefur orðið til þess að styrkja efnahaginn, sé Írland bundið af evrunni sem setji því skorður.
Engu að síður hafa írsk ríkisskuldabréf staðið sig best á evrópskum mörkuðum undanfarna 6 mánuði og hefur ávöxtunarkrafa til tveggja ára lækkað úr 24% niður í rétt rúm 5%. Því spyrja margir fjárfestar nú hvenær ríkissjóður Írlands komi aftur á alþjóðlegan markað, líkt og sá íslenski gerði í júní 2011.
Þá þykir Írland hafa staðið sig vel í að ná markmiðunum sem sett voru sem skilyrði fyrir björgunarpakka Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, án þess að það hafi leitt til stjórnarkrísu eða félagslegs óróa. Þetta varð til þess að Írar komust hjá nýlegum lækkunum matsfyrirtækjanna S&P og Fitch.
Þannig hefur Írland slitið sig laust frá vafasömum félagsskap Grikkja og Portúgala, en þess í stað stillt sér upp í flokki með Íslandi, sem lauk samstarfinu við AGS í fyrra. Reuters segir Írland þó ekki með öllu samanburðarhæft við Ísland, því hindranirnar séu enn margar í veginum.
Írland sé t.d. í viðkvæmri stöðu ef Grikkland verður gjaldþrota. Efnahagslegar batahorfur Írlands þurfi að batna til að fjárfestar treysti því að skuldir ríkisins verði ekki enn hærri, en spáð hefur verið að þær nái hámarki í 119% af vergri landsframleiðslu árið 2013.
Írar reiða sig að miklu leyti á útflutning og því veltur efnahagsbati landsins verulega á því hvernig kreppan þróast á heimsvísu. Ef útlitið fer batnandi í heimskreppunni gæti lukkuhjólið fljótt snúist Írum í hag.