Áform lífeyrissjóðanna um að taka þátt í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands á þessu ári fyrir allt að 200 milljónir evra með því að selja erlendar eignir sjóðanna og kaupa aflandskrónur mælast ekki vel fyrir á meðal aðila á fjármálamarkaði.
Aflandskrónurnar sem lífeyrissjóðirnir myndu kaupa í útboðum Seðlabankans yrðu notaðar til kaupa á ríkisskuldabréfum í krónum. Hagnaðinum af þeim viðskiptum yrði svo ráðstafað til að mæta 2,8 milljarða hlut lífeyrissjóðanna í fjármögnun sérstakra vaxtabóta og um leið kæmust sjóðirnir undan skattlagningu á greiðslu lífeyris.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag óttast viðmælendur blaðsins að með þessum hætti séu lífeyrissjóðirnir að taka skammtímahagsmuni fram yfir langtímahagsmuni.
Einn viðmælandi Morgunblaðsins bendir á að skattlagningin á lífeyrissjóði eigi aðeins að vera tímabundin. „Hins vegar er ljóst að það verður mjög erfitt fyrir sjóðina að fjárfesta erlendis næstu 5-7 árin. Vegna fárra fjárfestingarkosta hérlendis eiga þeir nú þegar 160 milljarða króna á innstæðureikningum. Með því að selja erlendan gjaldeyri fyrir aflandskrónur eru sjóðirnir að taka enn eitt skrefið í þá átt að setja öll eggin í sömu körfu.“