Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur sent frá fréttatilkynningu vegna útkominnar skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða.
Í tilkynningunni segir: „Lífeyrissjóður verzlunarmanna fagnar útkomu skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða. Skýrsla nefndarinnar er viðamikil og mikið safn heimilda og upplýsinga um lífeyrissjóðina, jafnt einstaka sjóði sem lífeyriskerfið í heild sinni.“
Áfram segir í tilkynningunni: „Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir á opinberum vettvangi, m.a. á ársfundum sjóðsins, var beint tjón hans vegna efnahagshrunsins metið um 50 milljarðar króna, eða um fimmtungur af þáverandi stærð sjóðsins. Helstu þættir í því mati eru tjón vegna tapaðra skuldabréfa innlendra banka, sparisjóða og annarra fyrirtækja sem og innlendra hlutabréfa, á tímabilinu frá lokum september 2008 út árið 2009.
Þessar niðurstöður eru í meginatriðum í samræmi við skýrslu úttektarnefndarinnar. Eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar áætlar hún tjón LV vegna innlendra hlutabréfa og skuldabréfa 70,6 milljarða. Því til viðbótar tilgreinir nefndin 9,6 milljarða tap vegna gjaldmiðlavarnarsamninga, eða samtals um 80 milljarða. Munurinn á þeim 50 milljörðum sem sjóðurinn hefur áður gert grein fyrir og nefndum 80 milljörðum liggur í því að úttektarnefndin tekur með í sínum tölum gengislækkun innlendra hlutabréfa fyrir hrun, þ.e. frá janúar 2008 út september sama ár. Einnig tekur nefndin, eins og áður segir, með áætlað tap vegna gjaldmiðlavarnarsamninga. Eins og fram hefur komið er ágreiningur um uppgjör gjaldmiðlavarnarsamninganna og það er nú í höndum lögmanna.“
Og enn segir í fréttatilkynningu LV: „Nefndin leggur fram margvíslegar tillögur um hvað mætti bæta í reglum og starfsháttum lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur að verulegu leyti tekið upp þær reglur sem nefndin fjallar um og leggur til. T.d. gerðist lífeyrissjóðurinn aðili að leiðbeinandi reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og stjórnarhætti fyrirtækja þegar árið 2006. Nýjar siða- og samskiptareglur voru samþykktar af stjórn sjóðsins árið 2009. Fjárfestingastefna hefur verið endurnýjuð, innri og ytri endurskoðun er nú framkvæmd af sitt hvoru endurskoðunarfyrirtækinu svo dæmi séu nefnd. Þá má geta þess að á árinu 2009 var ráðist í umfangsmikla stefnumótunarvinnu með aðstoð ráðgjafa. Sú vinna hefur skilað sér í margháttuðum umbótum.
Skýrsla úttektarnefndarinnar verður nú tekin til ítarlegrar skoðunar á vettvangi sjóðsins.“
Skýrslan, sem kom út í dag, er í fjórum bindum og má finna hér.