Hagfræðideild Landsbankans segir í hagsjá sinni, sem kom út í dag, að meiri líkur en minni séu á því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti hinn 8. febrúar nk.
Í hagsjánni segir að veruleg óvissa sé um stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar hinn 8. febrúar nk. Að mati hagfræðideildarinnar togast þar á annars vegar yfirlýsing nefndarinnar frá því í desember þar sem segir „núverandi vaxtastig virðist um það bil við hæfi á komandi mánuðum“ og hins vegar sú hraða aukning á kjarnaverðbólgunni sem orðið hefur, veiking krónunnar og vísbendingar um að hagvöxtur hafi verið mun kröftugri á síðasta ári en spár hafi sagt til um.
Þessu til stuðnings segir í hagsjánni: „Mikill vöxtur var á einkaneyslunni á liðnu ári. Fyrstu níu mánuði ársins jókst hún um 4,4% milli ára að raungildi. Tölur um kortaveltu á síðasta fjórðungi ársins benda til þess að einkaneyslan hafi haldið áfram að vaxa kröftuglega undir lok ársins. Sé það raunin er útlit fyrir að hagvöxturinn í fyrra hafi verið talsvert kröftugri en spáð var og því kunni framleiðsluslakinn, sem er lykilbreyta í ákvörðun vaxta, að hafa dregist hraðar saman en vænst hafði verið.“
Landsbankinn segir raunstýrivexti hafa verið neikvæða, hvort sem miðað væri við verðbólgu, verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja eða verðbólguálag á skuldabréfamarkaði.
„Frá síðasta fundi peningastefnunefndarinnar hefur krónan veikst um rúmlega 3% gagnvart bandaríkjadal, 1,6% gagnvart evru og tæp 5% gagnvart sterlingspundi. Kjarnaverðbólgan hefur hækkað hratt undanfarna mánuði og mælist nú 5,8%,“ segir að auki í hagsjá Landsbankans.
Ofangreint kann, að mati hagfræðideildar Landsbankans, að hafa áhrif á ákvörðun peningastefnunefndarinnar, en í því sambandi telur hagfræðideildin að helst verði horft til þess að draga úr núverandi slaka peningastefnunnar. Á móti þessum rökum komi hins vegar sú staðreynd að enn ríki óvissa um framþróun efnahagsmála margra helstu viðskiptalanda Íslands og sú staðreynd að atvinnuleysi á Íslandi er enn hátt og fjárfestingastigið lágt.
„Það er mat hagfræðideildar að meiri líkur séu á vaxtahækkun upp á 0,25 prósentur en óbreyttum vöxtum að þessu sinni. Í ljósi síðustu yfirlýsingar peningastefnunefndar er þó engan veginn hægt að útiloka óbreytta vexti,“ segir að lokum í hagsjá hagfræðideildar Landsbanka Íslands frá því í dag.