Gríðarlegur þrýstingur á Grikki

Fjármálaráðherra Grikklands, Evangelos Venizelos.
Fjármálaráðherra Grikklands, Evangelos Venizelos. Reuters

Grísk stjórnvöld eru undir gríðarlegum þrýstingi frá lánardrottnum sínum um að grípa til enn meiri niðurskurðar og aðhaldsaðgerða en þegar hefur verið gert vilji þau fá frekari fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að upphæð 130 milljarðar evra og forðast þannig að lenda í greiðsluþroti.

Haft er eftir fjármálaráðherra Grikklands, Evangelos Venizelos, í dag á fréttavef bandaríska dagblaðsins Washington Post að viðræður við lánardrottna landsins séu á mjög viðkvæmu stigi og að lítið megi út af bera til þess að upp úr þeim slitni. Þá er haft eftir honum að ná þurfi samningum fyrir annað kvöld en þeir strandi hins vegar á kröfum lánardrottna um frekari aðhaldsaðgerðir.

Ennfremur segir í fréttinni að vaxandi óþolinmæði gæti í garð Grikkja vegna andstöðu þeirra við að grípa til frekari aðgerða til þess draga úr útgjöldum hins opinbera og auka skatttekjur. Það hafi meðal annars sést vel á viðtali við Jean-Claude Juncker, sem fer fyrir fjármálaráðherrum evruríkjanna, í þýska blaðinu Der Spiegel í dag.

Þar var meðal annars haft eftir Juncker að möguleikinn á greiðsluþroti gríska ríkisins í mars ætti að ýta við Grikkjum og gera þeim kleift að hreyfa sig í stað þess að vera sem lamaðir. Þá sagði hann að ef Grikkland myndi ekki koma á nauðsynlegum umbótum gæti það ekki vænst þess að fá stuðning frá hinum evruríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK