Nokkrar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á yfirstjórn Sjóvár, en þær eru liður í þeim nýju áherslum í rekstri félagsins sem ætlað er að aðgreina betur skil milli sölu og þjónustu annars vegar og verðákvörðunar og framsetningu hinna ýmsu trygginga hins vegar, samkvæmt fréttatilkynningu.
Elín Þórunn Eiríksdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafarsviðs. Elín er viðskiptafræðingur að mennt og hefur undanfarin 5 ár starfað hjá Símanum, lengst af sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Áður starfaði hún um 9 ára skeið hjá Eimskip, lengst af sem forstöðumaður sölueininga. Frá því Elín hætti störfum hjá Símanum hefur hún gegnt stjórnarformennsku í Radíómiðun og Staka og situr sem meðstjórnandi í stjórn Símans. Elín var einnig um tíma varaformaður stjórnar Valitors.
Valdemar Johnsen, aðallögfræðingur Sjóvár, hefur tekið við sem framkvæmdastjóri vátryggingasviðs, sem er nýtt svið hjá Sjóvá. Innan vátryggingasviðs verða viðskiptaþróun, endurtryggingar og stofnstýringar auk lögfræðiráðgjafar, en Valdemar mun sem fyrr gegna starfi aðallögfræðings hjá félaginu. Valdemar gegndi um níu ára skeið starfi framkvæmdastjóra vátryggingasviðs og viðskiptaþróunar hjá Íslandstryggingu hf., síðar Verði tryggingum hf., áður en hann réðst á síðasta ári til starfa sem aðallögfræðingur Sjóvár.