Greiningardeild Arion-banka segir að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum hafi komið deildinni skemmtilega á óvart en deildin hafði spáð stýrivaxtahækkun.
Að mati Seðlabankans hefur undirliggjandi þróun hagkerfisins verið í takt við síðustu spá bankans og því ekki tilefni til viðbragða að svo stöddu.
Verðbólguhorfur verri en Seðlabankinn spáir
„Nú, líkt og oft áður, togast helst á þau sjónarmið um hvort aðhaldsstigið verði nægjanlegt í gegnum hærri vexti eða lægri verðbólgu. Í dag eru raunstýrivextir neikvæðir um 0,8% út frá mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Seðlabankinn hefur bent á að jafnvægisraunstýrivextir þurfi að vera á bilinu 1,5-2% þegar framleiðsluslakinn er horfinn úr hagkerfinu sem verður að mati bankans fyrst á árinu 2014.
Því er ljóst að enn er nokkur tími til stefnu þar til slaki hefur breyst í spennu og því má ætla að Seðlabankinn færi sig hægt og bítandi nær ákjósanlegu aðhaldsstigi.
Að okkar mati eru verðbólguhorfur fyrir næstu mánuði umtalsvert verri en mat Seðlabankans segir til um, þó að vissulega geti forsendur breyst á skömmum tíma. T.a.m. gerir bráðabirgðaspá okkar ráð fyrir ríflega 6,4% meðaltalsverðbólgu á fyrsta ársfjórðungi 2012 en til samanburðar spáir Seðlabankinn nú 6,1%.
Vissulega er eðlilegt að Seðlabankinn horfi fram hjá skammtímasveiflum í verðbólgunni og horfi til lengri tíma við vaxtaákvarðanir. Því skiptir ekki höfuðmáli hvernig þróunin verður á fyrsta ársfjórðungi heldur fyrst og fremst að verðbólguhorfur fari batnandi. Útlitið gefur hins vegar lítið tilefni til bjartsýni að okkar mati,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion-banka.
Greiningardeildin telur að í ljósi ákvörðunar Peningastefnunefndar nú í morgun séu litlar líkur á því Seðlabankinn hækki vexti strax í mars þar sem einungis ein verðbólgumæling verður þá komin í hús.
„Hins vegar teljum við að Seðlabankinn muni hækka vexti í maí um 25 punkta, nema eitthvað stórkostlegt breytist í millitíðinni. Út frá því sem Seðlabankinn bæði skrifaði og sagði í dag teljum við að stýrivextir gætu hækkað um 75 punkta á árinu,“ segir í Markaðspunktum.