Kínversk fyrirtæki og sjóðir fjárfesta nú af miklum móð í Evrópu. Einkum eru kínverskir fjárfestar á höttunum eftir fyrirtækjum á borð við orku- og rafmagnsveitur og iðnfyrirtækjum, en forðast skuldavanda evrusvæðisins og hafa ekki viljað koma nálægt björgunarsjóðum fyrir skuldsettustu ríkin þar.
Sérfræðingar segja að möguleikinn á kostakaupum í hinum aðþrengdu löndum Evrópu sé að baki fjárfestingum, en ekki valdaflétta kínverskra stjórnvalda. Bein fjárfesting Kínverja í Evrópu var 6,7 milljarðar dollara (826 milljarðar króna) í fyrra og hafði þá tvöfaldast frá árinu áður.
Í umfjöllun um mál þessi í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag kemur fram, að ótti hefur vaknað um að Kína gæti náð of miklum ítökum í skuldum hlöðnum hagkerfum. Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, sagði á þýsk-kínverskri viðskiptaráðstefnu í borginni Guangzhou nýlega að Kínverjar hefðu hvorki getu né vilja til að „kaupa Evrópu“. Hann sagði að Kínverjar væru „reiðubúnir til að eiga samstarf við Evrópu og berjast gegn yfirstandandi kreppu. Sumir segja að þetta þýði að Kínverjar vilji kaupa Evrópu. Þessar áhyggjur eru í engu samræmi við veruleikann. Kínverjar hafa þetta ekki í hyggju og hafa ekki getu til þess.“
Umsvif Kína í Evrópu hafa stóraukist undanfarin ár. Jonathan Holslag, sem starfar við Rannsóknarstofnun um Kína samtímans í Brussel, bendir þó á að fjárfestingar þeirra séu mun minni en t.d. Bandaríkjanna og Japans. „Ef Hong Kong er tekið með hafa Kínverjar líklega fjárfest fyrir um 40 milljarða dollara frá 2007,“ sagði hann við AFP. „En það eru þó aðeins um tveir hundruðustu af heildarfjárfestingum.“