Kjartan Georg Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri eignaleigusviðs MP banka. Kjartan stýrði m.a. SP-Fjármögnun í tæp 17 ár. Samstarfsmenn Kjartans til margra ára Pétur Gunnarsson og Herbert Svavar Arnarson hafa einnig gengið til liðs við MP banka. Allir þrír voru í forystusveit SP-Fjármögnunar um árabil, segir í tilkynningu frá MP banka.
Kjartan Georg Gunnarsson starfaði sem framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar frá stofnun félagsins árið 1995 þar til það sameinaðist Landsbankanum árið 2011. Fyrir þann tíma starfaði Kjartan meðal annars sem framkvæmdastjóri Féfangs sem einnig starfaði á eignaleigumarkaði. Kjartan hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina og meðal annars setið í stjórn Og Vodafone og var um tíma stjórnarformaður Varðar trygginga þar sem hann situr enn sem varaformaður stjórnar. Kjartan er Cand Oecon í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.
Herbert Svavar Arnarson hefur verið ráðinn forstöðumaður á eignaleigusviði MP banka. Herbert hóf störf hjá SP-Fjármögnun árið 2003 innan atvinnutækjafjármögnunar fyrst sem ráðgjafi og síðar sem sölustjóri og forstöðumaður. Seinna tók hann við stöðu forstöðumanns innheimtusviðs og að lokum var hann forstöðumaður útlánasviðs SP-Fjármögnunar. Áður starfaði hann meðal annars sem markaðsfulltrúi hjá Miðlun ehf. auk þess sem hann var atvinnumaður í körfuknattleik í Hollandi og Belgíu um skeið. Herbert er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA-gráðu í íþróttafræðum frá Kentucky Wesleyan College.
Pétur Gunnarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður bakvinnslu á rekstrarsviði MP banka. Pétur tók þátt í stofnun SP-Fjármögnunar á sínum tíma og starfaði fyrst sem deildarstjóri útlánasviðs til ársins 2003 þegar hann tók við stöðu forstöðumanns fjármálasviðs. Pétur er með BSc í viðskiptafræði frá University of North Carolina, Chapel Hill.