Skráð atvinnuleysi í janúar var 7,2% en að meðaltali voru 11.452 atvinnulausir í janúar og fækkaði atvinnulausum um 308 að meðaltali frá desember eða um 0,1 prósentustig.
Venjulega fjölgar atvinnuleitendum nokkuð milli desember og janúar mánaða, en fækkun nú skýrist einkum af tvennu.
500 afskráðir á atvinnuleysisskrá
Annars vegar að flestir þeirra ríflega 900 einstaklinga sem tóku þátt í námsátakinu „Nám er vinnandi vegur“ halda áfram námi vormisserið 2012 og fóru því af atvinnuleysisskrá um síðustu áramót.
Í annan stað rann út um síðustu áramót bráðabirgðaákvæði um minnkað starfshlutfall og í kjölfarið afskráðust um áramótin nálægt 500 manns sem höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur með hlutastarfi, segir í frétt Vinnumálastofnunar.
Fyrir ári nam aukning atvinnuleysis frá janúar til febrúar 2011, 0,1 prósentustigi, fór úr 8,5% í jan. 2011 í 8,6% í feb. 2011. Gera má ráð fyrir að atvinnuleysi breytist með líkum hætti milli mánuða í ár og síðasta ár og verði á bilinu 7,1‐7,4%.
Atvinnulausum fækkar á höfuðborgarsvæðinu
Körlum á atvinnuleysisskrá fjölgaði um 61 að meðaltali en konum fækkaði um 369. Atvinnulausum fækkaði um 313 á höfuðborgarsvæðinu en fjölgaði um 5 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 7,8% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 8% í fyrri mánuði. Á landsbyggðinni jókst atvinnuleysið úr 6,1% í desember 2011 í 6,2% í janúar 2012. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 12,5%, en minnst á Norðurlandi vestra 2,8%. Atvinnuleysið var 7,5% meðal karla og 6,8% meðal kvenna.
Alls voru 12.080 manns atvinnulausir í lok janúar. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 10.656. Fækkun atvinnulausra í lok janúarmánaðar frá lokum desember nam 599 en 40 færri karlar voru á skrá og 559 færri konur m.v. desemberlok. Á landsbyggðinni fækkaði um 205 og um 394 á höfuðborgarsvæðinu.
5.458 án atvinnu í sex mánuði eða meira
Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 5.458 og hefur fækkað um 1.169 frá lokum desember og eru um 45% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í janúar. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.526 í lok desember í 3.695 í lok janúar.
16% atvinnulausra á aldrinum 16-24 ára
Alls voru 1.930 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok janúar eða 16% allra atvinnulausra. Í lok desember voru 2.040 á þessum aldri atvinnulausir og hefur þeim fækkað milli mánaða um 110. Í lok janúar 2011 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 2.670.
1.245 Pólverjar án atvinnu
Alls voru 2.126 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok janúar, þar af 1.245 Pólverjar eða um 59% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 420.
Samtals voru 1.178 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok janúar í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í janúar. Þetta eru um 10% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok janúar.