Árangur hefur náðst í viðræðum Evrópusambandsins við stjórnvöld í Grikklandi. Ólíklegt er þó talið að niðurstaða í viðræðunum liggi fyrir fyrr en eftir helgi.
Viðræðurnar snúast ekki síst um að Grikkir nái að sannfæra fjármálaráðherra evruríkjanna um að þeir ætli að standa við fyrirheit sem þeir hafa gefið í tengslum við lánafyrirgreiðslu við Grikkland.
Jean-Claude Juncker, sem fer fyrir fjármálaráðherrunum, segir að þó að árangur hafi náðst þurfi að vinna meira í málinu til að fá skýrari mynd af því hvernig Grikkir ætli að koma áætlunum sínum í framkvæmd.
Stjórnvöld í Grikklandi vonast eftir að samkomulag takist um að afskrifuð verði lán að verðmæti 130 milljarðar evra. Ströng skilyrði fylgja þessari fyrirgreiðslu og hefur gengið illa að ná samkomulagi um hvernig kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður hrundið í framkvæmd.