Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands, segir að sá hugsunarháttur stjórnvalda að amast við gagnrýni ráðsins sé bæði fráleitur og hættulegur. Slíkur málatilbúnaður sé krafa um þöggun um að viðskiptalífið segi ekki sína skoðun og veiti aðhald. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Tómasar á Viðskiptaþingi í dag.
Viðskiptaráð hefur á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á tvennt. Að fara vel yfir sín störf í aðdraganda hrunsins og í framhaldi af því lagt fram málefnalegar tillögur um hvað betur má fara og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að leysa þau efnahagsvandamál sem við okkur blasa, að sögn Tómasar.
Höfum bent á ýmsar brotalamir
„Síðustu misserin hefur meginþunginn í vinnu okkar snúið að því að leggja fram hugmyndir og tillögur um hvernig auka megi umsvifin í íslenska hagkerfinu með heilbrigðum og varanlegum hætti. Um leið höfum við líka bent á það sem aflaga hefur farið á undanförnum árum við stjórn efnahagsmála. Við höfum til dæmis bent á það að skattkerfinu hefur á undanförnum þremur árum verið breytt að grunngerð og oftar en hundrað sinnum hafa skattar verið hækkaðir eða nýir teknir upp. Þetta á bæði við fyrir fólk og fyrirtæki og gildir einu hverjar tekjur fólksins eru, allir þurfa að greiða hærri skatta.
Jafnframt höfum við bent á ýmsar brotalamir í starfsumhverfi fyrirtækja, galla sem auðvelt er að laga ef góður vilji og skilningur á þörfum atvinnulífsins er til staðar hjá stjórnvöldum.
Því er ekki að neita að við höfum fundið fyrir því að stjórnvöld hafa amast við þessari gagnrýni og brugðist við henni með útúrsnúningum. Skilaboðin hafa verið nokkuð á þá lund að vegna þess að hér varð hrun þá eigi Viðskiptaráð ekkert upp á dekk, ráðið eigi ekkert með það að gagnrýna núverandi stjórnvöld.
Slíkur málatilbúnaður er bæði fráleitur og hættulegur. Hann er fráleitur vegna þess að það er skylda okkar allra að leggja allt það til sem við best kunnum og trúum að geti verið til framfara fyrir þjóðina. Fordómalausar umræður og yfirvegaðar rökræður eiga síðan að skera úr um hver stefnan á að verða. En málatilbúnaðurinn er líka hættulegur því hann er krafa um þöggun, krafa um að þeir sem gerst þekkja til í atvinnulífi landsmanna segi ekki skoðun sína og veiti ekki gagnrýnið og málefnalegt aðhald á mikilvægum tímum í sögu þjóðarinnar.
Að auki er rétt að halda til haga, að Viðskiptaráð hefur ávallt verið gagnrýnið á stjórnvöld, óháð hver þau eru hverju sinni, ef stjórn efnahagsmála er á skjön við hagsmuni atvinnulífs og hagsmuni samfélagsins í heild,“ segir Tómas.
Almenningur verður að geta treyst því að frelsi og ábyrgð fari saman
Hann segir að efla þurfi traust á atvinnulífinu og gæta þess að ganga þannig fram að almennur skilningur sé á því að þegar atvinnulífinu gengur vel þá gengur launafólki vel og þá gengur allri þjóðinni vel.
„Almenningur á að geta treyst því að frelsi og ábyrgð fara saman og að hvorugt geti án hins verið. Almenningur á að geta treyst því að rökrétt samhengi sé á milli frammistöðu og umbunar og að stjórnendur fyrirtækja taki alvarlega samfélagslegar skyldur sínar og þeirra fyrirtækja sem þeir eru í forsvari fyrir.
Varanlegur rekstrargrunnur fyrirtækja hvílir á framleiðniaukningu sem grundvölluð er á tækniþróun, aðgengi að fjármagni, menntuðu vinnuafli, bættri nýtingu auðlinda og fleiri þáttum sem of langt mál er að telja hér upp. En reynsla undanfarinna ára kennir okkur svo ekki verður um villst að ábyrgðarlaus áhættusækni, skuldsetningar og kæruleysislegir stjórnarhættir kollkeyra öllum rekstri,“ segir Tómas.
Hagvöxtur skiptir mestu
Þá fjallaði Tómas um hagvöxt sem hann sagði skipta öllu máli þegar rætt er um lífskjör þjóðarinnar. Vitanlega væri hagvöxtur ekki upphaf eða endir mannlegrar hamingju, en það mætti öllum vera ljóst að bætt lífskjör sem eiga rót sína í aukinni verðmætasköpun gera Íslendingum mögulegt að lifa betra lífi, að öðru óbreyttu. Nefndi hann m.a. að meðaltekjur á mann hefðu fjórfaldast á síðustu 65 árum en á því tímabili hafi hagvöxtur á mann verið um 2,3% á ári að meðaltali. Til marks um mikilvægi þess að vanda til verka við hagstjórn sagði Tómas að ef meðaltalshagvöxtur á tímabilinu hefði verið örlítið hærri, eða 2,6%, þá hefðu meðaltekjur getað fimmfaldast.
Sagði Tómas aukna framleiðni vera lykilinn að heilbrigðum og varanlegum lífskjarabata. Undir henni stæði atvinnulífið en um leið þyrfti að hafa í huga að reynsla undanfarinna ára hafi kennt, svo ekki verður um villst, að ábyrgðarlaus áhættusækni, skuldsetningar og kæruleysislegir stjórnarhættir kollkeyra öllum rekstri. Því þyrfti nú að efla traust á atvinnulífið. „Almenningur á að geta treyst því að frelsi og ábyrgð fara sama og að hvorugt geti án hins verið. Almenningur á að geta treyst því að rökrétt samhengi sé á milli frammistöðu og umbunar og að stjórnendur fyrirtækja taki alvarlega samfélagslegar skyldur sínar og þeirra fyrirtækja sem þeir eru í forsvari fyrir“ sagði Tómas.
„Við eigum, samhliða því sem við gerum kröfur á stjórnvöld um skynsamlegt laga- og regluverk utan um atvinnustarfsemina, að gera kröfur til okkar sjálfra um góða og ábyrga stjórnarhætti. Á það hefur Viðskiptaráð lagt sérstaka áherslu á undanförnum árum. Heilbrigt atvinnulíf sem nýtur trausts almennings og skilnings stjórnmálamanna er forsenda þess að Ísland haldi áfram að vera í hópi þeirra þjóða sem bjóða hvað best lífskjör.“