Krónan er fíllinn í stofunni

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Sig­urðsson, for­stjóri Öss­ur­ar, seg­ir ís­lensku krón­una í raun vera fíll­inn í stof­unni. Þetta gangi ekki mikið leng­ur og seg­ir að þeir sem vilja ekki ganga í Evr­ópu­sam­bandið og taka upp evru skuldi þjóðinni að benda á aðra lausn. Staðan eins og hún er í dag gangi hrein­lega ekki upp. Þetta kom fram í máli Jóns á Viðskiptaþingi í dag.

Jón fjallaði einnig um virði sér­stöðu Íslands sem hann sagði raun­ar frek­ar litla. Í reynd væri eina sérstaðan smæð Íslands og nefndi hann nátt­úru­auðlind­ir sem eitt dæmi þar um. Við eig­um ekki mikl­ar auðlind­ir en ef þeim er deilt á alla Íslend­inga þá eru þær ríku­leg­ar.

Jón sagði þetta viðmið hafa mótað verðmæta­sköp­un á Íslandi og þá sér­stak­lega það viðhorf að ef einn nýt­ir auðlind­ir þá sé verið að taka þær frá ein­hverj­um öðrum. Þetta væri vita­skuld ekki rétt því auðlind­in væri nýtt til að búa til verðmæti fyr­ir alla. Því miður hef­ur það sjón­ar­mið hins veg­ar orðið und­ir og því snér­ist umræðan alltaf um skipt­ingu kök­unn­ar en ekki stækk­un henn­ar. Umræðan um er­lenda fjár­fest­ingu er þar gott dæmi og sagðist hann telja að Íslend­ing­ar vildu ekki út­lenda fjár­festa til lands­ins.

Hann kom aðeins inn á stöðu Öss­ur­ar í er­indi sínu en hann seg­ir að Össur hafi í fyrstu verið óska­barn þjóðar­inn­ar þegar fyr­ir­tækið var skráð á markað. Nokkr­um mánuðum síðar hafði eng­inn áhuga leng­ur á fyr­ir­tæk­inu og þá hafi út­lend­ing­ar byrjað að kaupa í Öss­uri. Það skýri hvers vegna Össur er að mestu í eigu út­lend­inga.

Eins og að þakka brennu­vargi að ekki fór verr

Jón seg­ir að sömu viðhorf séu uppi nú og var hér áður, nú sé krón­unni þakkað að ekki fór verr. Það er rök­in með henni fyr­ir fall banka­kerf­is­ins væru þau sömu og beitt er nú. Þá sé  krón­an tví­skipt, verðtryggð og óverðtryggð, og því hefðum við aldrei fast land und­ir fót­um. Hann seg­ir að það sé sama og að þakka brennu­vargi fyr­ir að ekki fór verr.

Að sögn Jóns eru tveir gjald­miðlar á Íslandi. Ein­hver verði að segja: „Hey keis­ar­inn er ekki í nein­um föt­um.“ Hann seg­ir að þetta gangi ekki mikið leng­ur sem sýni sig í því að það er kom­inn ann­ar gjald­miðill á Íslandi.

Grund­völl­ur reiðinn­ar er óstöðugur gjald­miðill

Óstöðugur gjald­miðill eyk­ur sveifl­ur og leiðir til gríðarlegra til­færslna. Það sé grund­völl­ur reiðinn­ar í þjóðfé­lag­inu því gríðarleg­ir pen­ing­ar séu flutt­ir á milli hópa.

For­stjóri Öss­ur­ar sagði gjald­eyr­is­höft­in minna helst á komm­ún­ista­flokk­inn í Aust­ur-Þýskalandi. Hann seg­ir að alþjóðleg fé­lög geti ekki starfað á Íslandi til lang­frama vegna haft­anna. Hann seg­ist hins veg­ar von­ast til þess að Össur yf­ir­gefi ekki Ísland á næst­unni.

Tóm­atsósu­hag­fræðin -- minnka þarf gatið

Þá fjallaði Jón um tóm­atsósu­hag­fræðina, þ.e. að vegna smæðar Íslands væri öll framþróun og all­ar breyt­ing­ar alltaf hlut­falls­lega risa­vaxn­ar. Nefndi hann síld­ar­veiðar á síðustu öld og fjár­fest­ing­ar í orku­ferk­um iðnaði sem dæmi þar um. Þetta voru risa­vax­in verk­efni og það verður að passa að ruðnings­áhrif þeirra geri ekki illt verra.

Að auki ræddi Jón um þær gríðarlegu til­færsl­ur sem hafa orðið milli kyn­slóða og þjóðfé­lags­hópa og sagði hann gjald­miðil­inn eiga þar stór­an þátt. Þannig væri besta leiðin til að auðgast á Íslandi að vera á rétt­um stað þegar þess­ir fjár­magns­flutn­ing­ar verða.

Það sem þarf að gera að mati Jóns er þrennt: að stækka kök­una, þ.e. að auka inn­lend­ar og er­lend­ar fjár­fest­ing­ar, að minnka gatið á tóm­atsósu­flösk­unni, þ.e. meiri stöðug­leiki og að setja fíl­inn úr stof­unni með því að tengj­ast stærra myntsvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK