Krónan er fíllinn í stofunni

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir íslensku krónuna í raun vera fíllinn í stofunni. Þetta gangi ekki mikið lengur og segir að þeir sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið og taka upp evru skuldi þjóðinni að benda á aðra lausn. Staðan eins og hún er í dag gangi hreinlega ekki upp. Þetta kom fram í máli Jóns á Viðskiptaþingi í dag.

Jón fjallaði einnig um virði sérstöðu Íslands sem hann sagði raunar frekar litla. Í reynd væri eina sérstaðan smæð Íslands og nefndi hann náttúruauðlindir sem eitt dæmi þar um. Við eigum ekki miklar auðlindir en ef þeim er deilt á alla Íslendinga þá eru þær ríkulegar.

Jón sagði þetta viðmið hafa mótað verðmætasköpun á Íslandi og þá sérstaklega það viðhorf að ef einn nýtir auðlindir þá sé verið að taka þær frá einhverjum öðrum. Þetta væri vitaskuld ekki rétt því auðlindin væri nýtt til að búa til verðmæti fyrir alla. Því miður hefur það sjónarmið hins vegar orðið undir og því snérist umræðan alltaf um skiptingu kökunnar en ekki stækkun hennar. Umræðan um erlenda fjárfestingu er þar gott dæmi og sagðist hann telja að Íslendingar vildu ekki útlenda fjárfesta til landsins.

Hann kom aðeins inn á stöðu Össurar í erindi sínu en hann segir að Össur hafi í fyrstu verið óskabarn þjóðarinnar þegar fyrirtækið var skráð á markað. Nokkrum mánuðum síðar hafði enginn áhuga lengur á fyrirtækinu og þá hafi útlendingar byrjað að kaupa í Össuri. Það skýri hvers vegna Össur er að mestu í eigu útlendinga.

Eins og að þakka brennuvargi að ekki fór verr

Jón segir að sömu viðhorf séu uppi nú og var hér áður, nú sé krónunni þakkað að ekki fór verr. Það er rökin með henni fyrir fall bankakerfisins væru þau sömu og beitt er nú. Þá sé  krónan tvískipt, verðtryggð og óverðtryggð, og því hefðum við aldrei fast land undir fótum. Hann segir að það sé sama og að þakka brennuvargi fyrir að ekki fór verr.

Að sögn Jóns eru tveir gjaldmiðlar á Íslandi. Einhver verði að segja: „Hey keisarinn er ekki í neinum fötum.“ Hann segir að þetta gangi ekki mikið lengur sem sýni sig í því að það er kominn annar gjaldmiðill á Íslandi.

Grundvöllur reiðinnar er óstöðugur gjaldmiðill

Óstöðugur gjaldmiðill eykur sveiflur og leiðir til gríðarlegra tilfærslna. Það sé grundvöllur reiðinnar í þjóðfélaginu því gríðarlegir peningar séu fluttir á milli hópa.

Forstjóri Össurar sagði gjaldeyrishöftin minna helst á kommúnistaflokkinn í Austur-Þýskalandi. Hann segir að alþjóðleg félög geti ekki starfað á Íslandi til langframa vegna haftanna. Hann segist hins vegar vonast til þess að Össur yfirgefi ekki Ísland á næstunni.

Tómatsósuhagfræðin -- minnka þarf gatið

Þá fjallaði Jón um tómatsósuhagfræðina, þ.e. að vegna smæðar Íslands væri öll framþróun og allar breytingar alltaf hlutfallslega risavaxnar. Nefndi hann síldarveiðar á síðustu öld og fjárfestingar í orkuferkum iðnaði sem dæmi þar um. Þetta voru risavaxin verkefni og það verður að passa að ruðningsáhrif þeirra geri ekki illt verra.

Að auki ræddi Jón um þær gríðarlegu tilfærslur sem hafa orðið milli kynslóða og þjóðfélagshópa og sagði hann gjaldmiðilinn eiga þar stóran þátt. Þannig væri besta leiðin til að auðgast á Íslandi að vera á réttum stað þegar þessir fjármagnsflutningar verða.

Það sem þarf að gera að mati Jóns er þrennt: að stækka kökuna, þ.e. að auka innlendar og erlendar fjárfestingar, að minnka gatið á tómatsósuflöskunni, þ.e. meiri stöðugleiki og að setja fílinn úr stofunni með því að tengjast stærra myntsvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK