Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Mckinsey & Company hefði ákveðið að eigin frumkvæði og á eigin kostnað að ráðast í vinnu við mótun framtíðarstefnu fyrir Ísland. Þessi vinna hefst nú á vormánuðum og áætluð verklok eru um komandi áramót. Þetta kom fram í máli Hreggviðs Jónssonar, nýs formanns Viðskiptaráðs Íslands.
Vinna Mckinsey mun einkum snúa að þremur þáttum. Í fyrsta lagi verður lagt mat á styrkleika landsins og helstu forsendur vaxtar í hagkerfinu, í öðru lagi verða helstu ógnanir sem standa endurreisn hagkerfisins fyrir þrifum kortlagðar og í þriðja lagi verða lagðar fram tillögur um framtíðaráherslur í atvinnulífinu til að tryggja verðmætasköpun og bætt lífskjör til framtíðar.
Hreggviður ræddi meðal annars um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi og sagði allt framlag Íslendinga þurfa að vera samkeppnishæft. Til þess þyrfti öflugt atvinnulíf sem býr yfir sveigjanleika og starfar í stöðugu rekstrarumhverfi sem fæli í sér hvata til að sækja fram, skapa störf og bæta lífskjör. Því miður einkenndist umgjörð atvinnurekstrar í dag hins vegar af óvissu, stöðnun og skorti á framtíðarsýn um verðmætasköpun. Íslendingar hefðu þó alla burði og þekkingu til að færa það til betri vegar.
Hreggviður ræddi jafnframt um skort á samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, sem þyrfti að bæta. „Við hljótum að geta verið sammála um það markmið að efla lífskjör í landinu. Í því felst að hámarka þarf verðmætasköpun atvinnulífs. Við verðum að vinna saman að mótun aðlaðandi framtíðarsýnar fyrir komandi kynslóðir. Á einföldu máli, þá þurfum við að sameinast um það hvert við viljum fara og hvernig við viljum komast þangað.“